Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 9 árum.

Stjórnendur hjá Isavia fóru í skemmtiferð í boði Icelandair

Hlyn­ur Sig­urðs­son og Guð­mund­ur Daði Rún­ars­son fóru á lands­leik Ís­lands og Nor­egs í undan­keppni HM í boði Icelanda­ir.

Stjórnendur hjá Isavia fóru í skemmtiferð í boði Icelandair
Framkvæmdastjóri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar Hlynur Sigurðsson fór í skemmtiferð í boði Icelandair árið 2013.

Bæði framkvæmdastjóri, Hlynur Sigurðsson, og aðstoðarframkvæmdastjóri, Guðmundur Daði Rúnarsson, Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar fóru í dagsferð þann 15. október árið 2013 til að sjá seinni landsleik Íslands og Noregs í undankeppni heimsmeistaramótsins í fótbolta sem haldin var í Osló. Flugferðin var alfarið í boði Icelandair en óljóst er hvort önnur útgjöld hafi verið borguð af flugfélaginu. Þetta herma heimildir Stundarinnar innan Isavia.

Alvarlegur hagsmunaárekstur

Alvarleiki málsins snýst einna helst um það að Icelandair er aðeins eitt fjölmargra flugfélaga sem stundar viðskipti við Isavia og hefur félagið því mikinn hag af því að hafa stjórnendur jákvæða í sinn garð. Með því að þiggja slík boð getur hæglega komið til hagsmunaárekstra milli Isavia, sem er opinbert hlutafélag, og Icelandair sem kaupir þjónustu af félaginu.

Sem framkvæmdastjóri flugstöðvarinnar heyrir Hlynur Sigurðsson beint undir forstjóra Isavia, Björn Óla Hauksson. Hlynur situr enn fremur í framkvæmdaráði Isavia. Hann hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar frá árinu 2010.

Ekki eins og sýnist

Stundin hafði samband við Friðþór Eydal, talsmann Isavia, síðla miðvikudags og spurði hvort það teldist eðlilegt að framkvæmdastjóri hjá Isavia færi í slíka boðsferð. Hann óskaði eftir að fá fyrirspurnina senda í tölvupóst. Henni hefur ekki verið svarað.

Í samtali við Stundina í dag neitaði Hlynur að tjá sig um boðsferðina. Hann sagði að fréttatilkynning yrði sendi út „í dag eða á morgun“ vegna málsins. „Við erum að skoða þessi mál og við sendum tilkynningu. Nei, ég tjái mig ekki persónulega um þetta. Þetta er ekki eins og sýnist,“ segir Hlynur. Ekki náðist í Guðmund Daða Rúnarsson, aðstoðarframkvæmdastjóra, vegna málsins.

„Þetta er ekki eins og sýnist“

Stundin óskaði eftir viðbrögðum frá Guðjóni Arngrímssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair. Hann segist koma af fjöllum um málið og ekki geta tjáð sig um flug einstakra farþega. „Spurðu þá bara. Ég get ekki einu sinni staðfest að þessi ferð hafi verið farin. Ég hef ekki grænan grun um hvað þú ert að tala. Spurðu þá fyrst, þessa ágætu drengi,“ segir Guðjón.

Enn eitt Isavia-málið

Ríkisfyrirtækið Isavia hefur nú ítrekað verið í fréttum vegna ýmissa mála. Skemmst er að minnast fréttaflutnings Kastljóss á dögunum þar sem greint var frá því að fyrirtækið hafi greitt fleiri hundruð þúsund krónur í ferðalög eiginkonu Björns Óla Haukssonar, forstjóra Isavia. 

Viðskiptablaðið greindi svo frá því að bílahlunnindi væru ríflega tvær og hálfar milljónir á síðasta ári. Tíu stjórnendur hjá ríkisfyrirtækinu hafa bifreið til afnota.

Uppsögn þriggja yfirmanna við öryggisdeild Isavia hefur auk þessa verið gagnrýnd harðlega. Uppsagnirnar voru sagðar vera vegna skipulagsbreytinga sem við nánari skoðun stenst ekki. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur gagnrýnt þessar uppsagnir.

„Þeir sátu einir á móti tveimur yfirmönnum þegar þeim voru sögð ótíðindin og muna varla orð af því sem sagt var vegna áfalls yfir fréttunum. Trúnaðarmaður var ekki boðaður til stuðnings mönnunum. Það er sárt að horfa á fullfríska menn bogna vegna harkalegra aðgerða yfirmanna sem hvergi þurfa að standa skil á verkum sínum. Fjölskyldur þeirra, börn og foreldrar brotna, öryggi heimilisins hverfur og eftir sitja góðir menn í þoku vonleysis og kvíða. Á sama tíma líðst yfirmönnum fyrirtækisins að ganga hart fram í starfsmannamálum og brjóta eigin reglur um siðferði og meðferð fjármuna fyrirtækisins og misnota aðstöðu sína meðan vammlausum starfsmönnum er sagt upp störfum án þess að hafa nokkuð til saka unnið,“ sagði Ásmundur í umræðu um störf þingsins síðastliðinn þriðjudag.

Viðskiptablaðið greindi frá því upphafi mánaðar að aðalmenn í stjórn Isavia fá hæst laun af stjórnarmönnum opinberra hlutafélaga á Íslandi. Aðalmenn stjórnar Isavia hafa 137 þúsund krónur í laun á mánuði og stjórnarformaður um 300 þúsund krónur.

 

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Isavia

Mest lesið

Íslendingar þurfi að ákveða hvar þeir staðsetja sig: „Þetta eru mjög válegir tímar“
4
ViðtalBandaríki Trumps

Ís­lend­ing­ar þurfi að ákveða hvar þeir stað­setja sig: „Þetta eru mjög vá­leg­ir tím­ar“

Pól­skipti hafa átt sér stað í vest­rænu varn­ar­sam­starfi með skyndi­legri stefnu­breyt­ingu Banda­ríkj­anna í ut­an­rík­is­mál­um, seg­ir Erl­ing­ur Erl­ings­son hern­að­ar­sagn­fræð­ing­ur. Hætta geti steðj­að að Ís­landi en Banda­rík­in hafi sýnt að þau séu óút­reikn­an­leg og beri ekki virð­ingu fyr­ir leik­regl­um al­þjóða­kerf­is­ins.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Einn og hálfur tími á bráðamóttöku: Sjálfsskaði, hjartastopp og hnífstunga
4
Á vettvangi

Einn og hálf­ur tími á bráða­mót­töku: Sjálfsskaði, hjarta­stopp og hnífstunga

Eitt orð má aldrei nota á bráða­mót­töku Land­spít­al­ans og það er orð­ið ró­legt. Nán­ast um leið og Jón Ragn­ar Jóns­son bráða­lækn­ir hef­ur orð á að það sé óvenju ró­legt á næt­ur­vakt eina helg­ina dynja áföll­in á. Hann hef­ur rétt kom­ið manni til lífs þeg­ar neyð­ar­bjall­an hring­ir á ný. Síð­an end­ur­tek­ur sama sag­an sig.

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár