Samtökin Stígamót birtu harðorða yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni rétt í þessu, í kjölfar þess að fimm karlmenn voru sýknaðir af ákæru um hópnauðgun.
„Nú rignir eldi og brennisteini eins og stundum áður. Það er svo komið að okkur sýnist ekki bara erfitt að mæla með því að kæra kynferðisofbeldi. Okkur sýnist að svo sé komið að nærtækast sé að ráða fólki frá því að kæra. Það er ekki bara vonlítið að ná fram réttlæti, heldur á fólk á hættu að vera úthrópað glæpafólk. Það getur átt von á að vera kært fyrir falskar ásakanir og þurfa þá að sanna það sem lögreglunni tekst oftast ekki að sanna, að nauðgun hafi átt sér stað. Í þá stöðu er ekki hægt að setja fólk og það er óviðunandi.
Við minnum á Sannleikssjóðinn okkar. Hann er ætlaður til þess að styðja við þær konur sem eru kærðar fyrir að segja frá ofbeldi gegn sér. Í honum er lítið fé, en við gætum reynt að efla hann.
Grasrótin í kvennahreyfingunni er sprelllifandi og lokaðir hópar kvenna sem beittar hafa verið kynferðisofbeldi, hafa óskað eftir stuðningi og neyðarfundi hjá Stígamótum til þess að geta haldið utanum hverja aðra og til þess láta ekki óréttinn buga sig. Í þessu ríki þykir ríkja mest jafnrétti í öllum heiminum sjöunda árið í röð,“ segir í yfirlýsingu Stígamóta.
Blaut tuska
Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður eins mannanna, skaut fast á Stígamót í viðtali við DV fyrr í dag. Þar sagði hann að niðurstaða dómstóla væri blaut tuska í andlitið á dómstól götunnar. „Þetta er lexía fyrir íslenskt samfélag. Þegar svona brot koma upp eiga menn að halda aðeins aftur af sér og treysta lögreglu og dómstólum að klára málin. Þetta er líka þörf ábending til Stígamóta um að sinna sínum fórnarlömbum en ekki kynda undir ófriðarbálið þegar málin eru í upphafi málsmeðferðar,“ er haft eftir Sveini Andra.
Athugasemdir