Útlendingastofnun hefur tilkynnt írönskum hælisleitanda að hann þurfi sjálfur að bera kostnað af lögmannsþjónustu vegna hælisumsóknar sinnar á Íslandi. Rauði krossinn útvegar hælisleitendum lögfræðiaðstoð samkvæmt samningi sem innanríkisráðuneytið gerði við samtökin í fyrra. Hælisleitandinn treystir hins vegar ekki lengur Rauða krossinum og hefur óskað eftir því að Katrín Oddsdóttir, lögmaður á lögmannsstofunni Rétti, taki málið sitt að sér.
Um er að ræða sama mann og hótaði að kveikja í sér fyrir utan höfuðstöðvar Rauða krossins í lok ágúst. Eins og Stundin greindi frá á fimmtudag fóru starfsmenn Útlendingastofnunar inn í íbúð mannsins og handléku eigur hans, meðal annars fjölskyldumyndir, meðan hann var vistaður á geðsviði Landspítalans. Hælisleitandinn var mjög óánægður með þetta og gerði starfsmaður Rauða krossins athugasemd við vinnubrögðin.
„Kostnað vegna þjónustu Katrínar mun Útlendingastofnun ekki greiða heldur verður þú að sjá um þann kostnað
sjálfur. Gerir þú þér grein fyrir þessu?“
Í síðustu viku, eftir að maðurinn hafði farið fram á að skipta um lögmann, heimsóttu starfsmenn Útlendingastofnunar hann, afhentu honum bréf sem skrifað er á íslensku og kynntu honum efni þess. Bréfið hljóðar svo:
„Sú gjaldfrjálsa lögfræðiaðstoð sem Útlendingastofnun útvegar hælisleitendum er sú þjónusta sem Rauði kross Íslands veitir. Þar sem þú hefur óskað eftir því að Katrín Oddsdóttir lögmaður taki við máli þínu er þér þér hér með kynnt að kostnað vegna þjónustu Katrínar mun Útlendingastofnun ekki greiða heldur verður þú að sjá um þann kostnað sjálfur. Gerir þú þér grein fyrir þessu?“
Staðfesti maðurinn með undirskrift að sér hefði verið efni bréfsins „nægilega kynnt“. Jafnframt var hann beðinn um að veita Útlendingastofnun heimild til að fá upplýsingar úr sjúkraskrá um andlega heilsu sína.
Athugasemdir