Heildarlög um opinber fjármál voru samþykkt á Alþingi á laugardag með 46 atkvæðum. Einungis þingmenn Vinstri grænna greiddu atkvæði gegn frumvarpinu, en að sögn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, varaformanns fjárlaganefndar, eru þetta „stærstu og mikilvægustu lög“ þessa haustþings. Með lögunum er svigrúm fjárveitingarvaldsins til að reka ríkissjóð með halla takmarkað allverulega. Stundin fjallaði ítarlega um þennan þátt frumvarpsins, svonefnda fjármálareglu, í sumar og ræddi við tvo hagfræðinga sem leist ekki á blikuna.
Samkvæmt 7. gr. laganna verða markmið fjármálastefnu og fjármálaáætlunar um afkomu og efnahag hins opinbera að samræmast þremur skilyrðum. Í fysta lagi þarf heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil alltaf að vera jákvæður og árlegur halli alltaf að vera undir 2,5 prósentum af landsframleiðslu. Í öðru lagi þurfa heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, að vera lægri en nemur 30 prósentum af vergri landsframleiðslu. Í þriðja lagi er kveðið á um að ef skuldahlutfall fari yfir 30 prósent skuli sá hluti sem umfram er lækka að meðaltali á hverju þriggja ára tímabili um að minnsta kosti 5 prósent á hverju ári.
Athugasemdir