„Hljóðlátur skriðþungi einkavæddrar læknisþjónustu utan sjúkrahúsa“ hefur smám saman þrengt að þeirri hugmynd um heildarsýn og samhæfingu sem var leiðarstefið í uppbyggingu heilsugæslunnar á Íslandi í upphafi. Ekki hefur tekist að gera heilsugæsluna að fyrsta viðkomustað sjúklinga þrátt fyrir að það hafi verið stefna heilbrigðisyfirvalda til margra ára. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í grein Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur, dósents í opinberri stjórnsýslu við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands, sem birtist í nýjasta tölublaði Stjórnmála og stjórnsýslu.
Í greininni er fjallað með nokkuð ítarlegum hætti um íslenska heilbrigðiskerfið, einkum fyrirkomulag sérgreina- og heilsugæslulækninga og þróun þess á undanförnum áratugum. Niðurstaða Sigurbjargar er sú að stjórnvöldum hafi ekki tekist að mynda samstöðu um að gera hugmyndina um heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustaðinn í heilbrigðiskerfinu að sérstöku forgangsmáli. Sú stefna um hlutverk heilsugæslunnar innan heilbrigðiskerfisins sem mörkuð er í lögum hafi liðið fyrir skort á langtímasýn og samfelldri pólitískri forystu sem gæti fylgt slíkri sýn eftir.
Pólitísk ákvörðun um aukinn einkarekstur
„Einkarekin lækningaþjónusta utan sjúkrahúsa hefur þess í stað aukist jafnt og þétt innan kerfisins og smám saman þokað þeirri lækningaþjónustu utan sjúkrahúsa sem þar var fyrir út á hliðarlínu kerfisins,” skrifar Sigurbjörg og bætir við: „Heilsugæslulækningar á höfuðborgarsvæðinu náðu aldrei að verða nægilega öflugar til að geta staðið gegn þungum straumi tæknivæddra sérgreinalækninga utan sjúkrahúsa. Það var pólitísk ákvörðun að hafa aðgang sérgreinalækninga að lækningamarkaðnum utan sjúkrahúsa óheftan, en takmarka aðgang heilsugæslulækninga.“
Athugasemdir