Mark Blyth, skoskur prófessor í alþjóðlegri stjórnmálahagfræði við Brown háskóla í Bandaríkjunum, segir fjármálareglur íslenskra stjórnvalda vanhugsaðar og til þess fallnar að grafa undan sjálfvirkum sveiflujöfnurum ríkisfjármálanna. Honum finnst sorglegt að ríkisfjármálastefna af þessu tagi sé við lýði á Íslandi.
Blyth er þekktastur fyrir bók sína Austerity: The History of a Dangerous Idea sem kom út árið 2012 og vakti heimsathygli. Þar er fjallað með ítarlegum hætti um skaðleg áhrif aðhalds- og niðurskurðarstefnu í efnahagsmálum og þá hugmyndafræði sem býr að baki slíkri hagstjórn.
Stundin hafði samband við Mark Blyth og bar undir hann þær fjármálareglur sem kynntar hafa verið til sögunnar á Íslandi; annars vegar fjármálaregluna sem lögfest var þegar lög um opinber fjármál voru samþykkt á Alþingi árið 2015 og hins vegar útgjaldaþakið og stefnuviðmiðið um tekjur hins opinbera í fjármálaáætlun og fjármálastefnu núverandi ríkisstjórnar.
„Maður getur skilið hvatann á bak við svona reglur hjá t.d. Þjóðverjum, þar sem óttinn við skuldsetningu hins opinbera er gríðarlegur og í raun fjarstæðukenndur en á sér þó djúpar sögulegar rætur, og t.d. í Brasilíu þar sem gríðarleg sundrung og fullkomið vantraust ríkir… en hvers vegna eru Íslendingar að þessu? Þetta er mjög dapurlegt að heyra,“ segir Blyth.
Í lögum um opinber fjármál er kveðið á um að hallarekstur ríkisins megi ekki nema meira en 2,5 prósentum af vergri landsframleiðslu. Í ríkisfjármálaáætlun núverandi ríkisstjórnar eru tekjöflun ríkisins settar sérstakar skorður með stefnumiði um að frumtekjur hins opinbera megi ekki aukast umfram hagvöxt en sams konar reglu var að finna í fjármálaáætlun síðustu stjórnar. Í fjármálastefnu núverandi ríkisstjórnar er svo einnig að finna sérstakt útgjaldaþak; þá reglu að heildarútgjöld hins opinbera mega ekki nema meira en 41,5 prósentum af vergri landsframleiðslu næstu árin.
Seðlabankinn hefur gagnrýnt stefnumið síðustu ríkisstjórnar um tekjuöflun harðlega og sagt að skorðurnar sé sveifluaukandi og afar bagalegar. Þá hefur fjármálaráð bent á að útgjaldareglan geti orðið til þess að stjórnvöld festist í „spennitreyju“ eigin fjármálastefnu ef hagvöxtur reynist ekki jafn mikill og gert er ráð fyrir.
Mark Blyth tekur undir þessa gagnrýni. „Þetta grefur undan sjálfvirku sveiflujöfnurunum og getur þannig dýpkað efnahagslægðina þegar þar að kemur,“ segir hann. Þá furðar hann sig á að Alþingi hafi lögfest regluna um takmörkun á svigrúmi til hallareksturs ríkissjóðs þegar lög um opinber fjármál voru sett árið 2015, enda sé fráleitt sé að binda hendur fjárveitingarvaldsins með slíkum hætti. „Það er sorglegt að samfélag eins og Ísland taki upp á slíku til þess eins að spara nokkra skildinga,“ segir hann.
Hann bendir á að fjármálareglur á borð við þessar séu að verða æ algengari. Þannig sé engu líkara en að reynt sé að festa í sessi, og gera nánast óafturkræfa, þá aðhaldsstefnu sem riðið hefur húsum víða um heim undanfarna áratugi. Slíkt gagnist engum nema lánardrottnum og ráðandi stéttum.
Hér má sjá myndskeið frá 2010 þar sem Mark Blyth fjallar um aðhaldsstefnu:
Athugasemdir