„Það er slökkt af mannavöldum,“ sagði Grímur Grímsson rannsóknarlögreglumaður á blaðamannafundi um hvarf Birnu Brjánsdóttur rétt í þessu. „Slökkt á símanum. Manúalt slökkt á símanum,“ segir Grímur.
Spurður hvort einhver hafi verið með henni sem hafi viljað slökkva á síma hennar svarar Grímur: „Það er góð spurning.“
Grunsamlegt hvarf Birnu er rannsakað út frá því að hún hafi horfið í Reykjavík eða Hafnarfirði, allt eftir því hvort hún hafi verið aðskilin frá síma sínum eða ekki. Hún sást á öryggismyndavélum á Laugavegi, en virðist ekki hafa farið lengra en Laugaveg 31. Leitað er að ökumanni á Rauðum Kia Rio sem ók á Laugaveginum sömu mínútu, eða klukkan 05:25.
Lögreglan hefur birt myndband af ferðum Birnu mínúturnar áður en hún hvarf.
Sími hennar greindist á farsímasendum í eða við Hafnarfjörð um nóttina. „Síminn gæti hafa farið áleiðis upp í Heiðmörk,“ sagði forsvarsmaður slysavarnarfélagsins Landsbjargar á fundinum. Ein sviðsmyndin er að sími Birnu hafi ferðast svokallaða flóttamannaleið frá Reykjanesbraut að Vífilsstöðum og inn í Hafnarfjörð.
Birna er 170 sentímetrar á hæð, um 70 kíló, ljósrauðhærð með slegið hár. Hún er tiltölulega nýhætt í sambandi og er talið ólíklegt að hún hafi ætlað sér að ganga heim til sín, þar sem hún býr í Breiðholtinu.
Að sögn móður Birnu hafði hún nýlega skráð sig að nýju á samfélagsmiðilinn Tinder, sem notaður er til að koma á kynnum milli fólks. Hún hafi áður kynnst ferðamönnum í gegnum Tinder og farið í ferð innanlands.
Vísbendingar um vanlíðan
Lögreglan hefur fengið leyfi fjölskyldunnar til að skrá sig inn á Facebook-aðgang Birnu, en engin virkni var þar eftir síðasta fimmtudag.
„Það eru vísbendingar um að henni hafi ekki liðið vel. Fjölskyldan segir okkur að hún sé með dálítið svartan húmor. Það sem kemur fram í þessu skyni sé því marki brennt að vera svartur húmor.“
Lögreglan hefur engar kenningar til að vinna eftir og leitar frekari upplýsinga. „Það er ekkert sem bendir til þess að þetta hafi verið sjálfsvíg en í svona rannsókn er ekkert útilokað,“ segir Grímur.
Skilaboð til íbúa í miðborginni
„Það er verið að leggja áherslu á það núna að fara í leit í nágrenni Hafnarfjarðar. Annað sem ég vildi vilja nefnna ogg biðja ykkur að koma á framfæri við íbúa í miðborginni er sú að landsbjörg fór í leit og leitaði á svæði í 300 metra radíus frá þeim stað sem Birna sást síðar,“ segir Grímur.
Hann biðlar til fólks í miðborginni, sérstaklega fólks sem býr á svæðinu milli Lækjargötu, Skólavörðustígs, Barónstígs og Sæbrautar. „Við viljum biðja íbúa sem eiga eignir á þessu svæði að kanna hvort Birna leynist í skúmaskotum, kjöllurum.“
Unnið er eftir mörgum mismunandi kenningum. Ein þeirra er að Birna hafi beygt niður Vatnsstíg. Þyrla Landhelgisgæslunnar verður send af stað í leitina í Hafnarfirði með hitamyndavélar.
„Það er kannski einfeldningslegt af minni hálfu, en mig langar að halda áfram leitinni með það fyrir augum að við finnum hana á lífi,“ sagði Grímur.
Athugasemdir