Sigmundur Davíð Gunnlaugsson beitti sér með margvíslegum hætti gegn neikvæðri umfjöllun um sig og Framsóknarflokkinn sem forsætisráðherra. Hann kallaði meðal annars yfirmenn fjölmiðla á fundi. Nú hefur hann skilgreint hóp á Ríkisútvarpinu sem er á móti honum. Hópinn kallar hann SDG-RÚV-hópinn. Í opnu bréfi sínu í Morgunblaðinu í dag lýsir hann umfangsmiklu samsæri gegn sér sem SDG-RÚV-hópurinn hafi tekið þátt í.
Fyrrverandi forsætisráðherra sakar Ríkisútvarpið um að hafa „stigið það skref að leita samráðs við utanaðkomandi og erlenda aðila um að steypa ríkisstjórn Íslands af stóli.“ Í greininni talar hann um Icesave-deiluna sem stríð og ásakar Ríkisútvarpið um að hafa tekið afstöðu gegn þjóðinni í því.
Segist hafa verið kallaður „skíthæll“
Sigmundur Davíð lýsir því í bréfi sínu að fréttamaður RÚV hafi beðið hann að hringja í sig eftir að forseti Íslands synjaði lögum um Icesave-samninginn staðfestingar. Hann segir fréttamanninn hafa kallað sig skíthæl. „Ég hringdi og þegar fréttamaðurinn svaraði heilsaði hann með því að segja: „Hvað segir þú skíthæll?“ Svo var ég beðinn að koma í Efstaleiti í viðtal þar sem ég fékk ekki mikið betri móttökur. Æstur starfsmaður fréttastofunnar (sem greinilega trúði eigin áróðri) spurði mig: „Hvað ert þú eiginlega búinn að gera, nú hrynur allt!“
Hann fullyrðir að í seinna skiptið sem forsetinn hafi synjað Icesave-lögum staðfestingar hafi fréttamaður RÚV skellt á hann. „Þegar forsetinn synjaði svo í seinna skiptið var ég staddur erlendis en fékk símtal frá fréttastofu RÚV og ekki í þeim tilgangi að flytja mér hamingjuóskir. Eftir að ég hafði lýst því að þetta væri góð niðurstaða var skellt á mig.“
Forsætisráðherra fundaði með útvarpsstjóra
Strax sumarið 2013, nokkrum vikum eftir að hann varð forsætisráðherra, fundaði Sigmundur Davíð með Páli Magnússyni, þáverandi útvarpsstjóra. Greint var frá fundum Sigmundar með yfirmönnum fjölmiðla í Stundinni í apríl síðastliðnum. Á fundi sínum með Páli Magnússyni kynnti forsætisráðherrann þáverandi möppur með úrklippum og afritum af gagnrýni á Framsóknarflokkinn og vitnaði í bloggfærslu tiltekins starfsmanns Ríkisútvarpsins, þar sem flokkurinn var gagnrýndur. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur ekki svarað spurningum um fundina.
Í opinni grein sinni í Morgunblaðinu í dag tiltekur Sigmundur að viðhorf meðlima SDG-RÚV-hópsins gagnvart sér séu ekki leyndarmál, þar sem starfsmenn RÚV hafi tjáð sig um hann á mannamótum og í viðtölum. „Svo ekki sé minnst á facebook, twitter og blogg þar sem sama fólk lýsir skoðunum sínum á mér og öðrum stjórnmálamönnum. Það eitt fyllir tvær þykkar möppur,“ skrifar Sigmundur.
„Ábendingar“ valdhafa
Sigmundur Davíð fundaði einnig með Magnúsi Geir Þórðarsyni, núverandi útvarpsstjóra.
Magnús Geir sagðist í samtali við Stundina í apríl hafa fengið „ábendingar“ og „athugasemdir“ frá valdhöfum og fulltrúum þeirra. Hann vill ekki svara því hvort þær hafi komið fram á fundum með forsætisráðherra.
„Eðlilega hef ég átt fundi með forsætisráðherra eins og öðrum ráðherrum, til að ræða málefni RÚV. Tilefnið var ávallt eðlilegt, að ræða fjármögnun RÚV og starfsemina. Ég kann ekki við að endursegja tveggja manna tal en skoðanir hans á fréttaflutningi hafa hins vegar komið fram opinberlega,“ sagði hann.
Magnús sagði að „ábendingar“ frá valdhöfum hefðu stundum farið út fyrir það eðlilega. „Stundum hafa þessar ábendingar farið yfir þá línu sem eðlileg er og þá gerir maður athugasemd. Þá ríður á að við stöndum í lappirnar og gefum hvergi eftir. Það er ekki óeðlilegt að menn segi sína skoðun en hins vegar er auðvitað óeðlilegt með öllu ef slíkar athugsemdir eru settar í beint eða óbeint samhengi við fjárveitingar eða umgjörð stofnunarinnar. Sjálfstæði almannamiðilsins er gríðarlega mikilvægt í lýðræðisríki og okkur, starfsfólki RÚV, ber að standa fast á þeim prinsippum og gefa hvergi eftir.“
Fundaði með ritstjóra og fréttastjóra Fréttablaðsins
Sigmundur Davíð kallaði Sigurjón M. Egilsson, dagskrárgerðarmann á Bylgjunni og fyrrverandi fréttastjóra 365, einnig á fund með sér í janúar 2015. Á fundinum sýndi Sigmundur myndir af sér úr fjölmiðlum til að undirstrika að fjölmiðlamenn beittu sér gegn honum með myndavali. Þá taldi hann upp nöfn gagnrýnenda sinna í fjölmiðlum og rakti greiningu sína á gagnrýni Sigurjóns á stjórnmálaflokka, með þeirri niðurstöðu að hann hefði gagnrýnt Framsóknarflokkinn mest.
Auk þess að hitta fréttastjóra stærsta fjölmiðlafyrirtækis landsins og kvarta undan gagnrýni á sig hitti Sigmundur Davíð aðalritstjóra fyrirtækisins á fundi, samkvæmt heimildum Stundarinnar. Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri 365, kom, samkvæmt heimildum, að máli við Sigurjón nokkru fyrir fundinn sem hann átti með forsætisráðherra, og gagnrýndi hann fyrir að vera óhóflega „neikvæður“ í garð ríkisstjórnarinnar.
Á fundinum með Sigmundi notaði forsætisráðherra síðan sama orðalag, að Sigurjón væri „neikvæður“. Samkvæmt heimildum hitti Kristín Sigmund á fundi, þar sem umfjallanir um Sigmund Davíð og ríkisstjórn hans voru ræddar. Kristín svaraði ekki spurningum Stundarinnar um málið í apríl. Í desember sama árs veitti aðalritstjórinn Sigmundi Davíð og Bjarna Benediktssyni verðlaun fyrir „viðskipti ársins“.
Lýsir samsæri RÚV og „Icesave-stríði“
Auk þess að saka Ríkisútvarpið um að hafa leitað til erlendra aðila um að steypa ríkisstjórn Íslands af stóli með umfjöllun sinni um leynda eign Sigmundar og eiginkonu hans í skattaskjólsfélagi, sem átti kröfur á íslensku bankana, ásakar fyrrverandi forsætisráðherra Ríkisútvarpið um að hafa tekið afstöðu gegn íslenskri þjóð í því sem hann kallar „Icesave-stríðinu“, meðal annars með því að kalla „endalaust“ til fræðimenn sem töldu að Íslendingar ættu að borga hollenskum og breskum innistæðueigendum tjón sitt vegna falls útibúa Landsbankans.
Þá segir Sigmundur að viðtalið sem hann gekk út úr eftir að hafa verið staðinn að því að afneita skattaskjólsfélagi sínu, hafi verið „falsað“. „Ýmiss konar þvættingi öðrum var blandað inn í frásögnina og loks stuðst við falsað viðtal við mig. Viðtal sem menn höfðu beinlínis æft hvernig mætti láta koma sem verst út fyrir viðmælandann og rugla hann sem mest í ríminu um hvað verið væri að ræða. Viðtal sem var tekið á fölskum forsendum og í framhaldi af samskiptum sem að öllu leyti byggðust á hreinni lygi af hálfu starfsmanna og samstarfsmanna RÚV. Viðtal sem svo var klippt sundur og úr samhengi og svörtum fílter og öðrum tæknibrellum beitt í ofanálag.“
Segir að ráðist hafi verið á sig
Þá beinir Sigmundur spjótum sínum að SDG-RÚV-hópnum í grein sinni. „Það getur varla talist ásættanlegt að pólitískir aktívistar fái gagnrýnilaust að nota slíka ríkisstofnun til að reka eigin áróður.“
Hann segist hafa verið meginskotmarkið í Panamaskjölunum. „Eftir því sem frá leið þurfti enginn að efast um hvert væri megin skotmarkið. Þegar ég hafði stigið til hliðar hvarf skyndilega allur áhugi á Panama-skjölum og því hvaða nöfn hefðu birst þar og hvers vegna. Við tóku áhyggjur nokkurra RÚV-aktívista af því að ég kynni að halda áfram í stjórnmálum. Þær áhyggjur leyndu sér ekki á mannamótum og samfélagsmiðlum. Eftir fylgdu afar sérstæð afskipti af málefnum Framsóknarflokksins, köllum það einlægan áhuga. Sá áhugi birtist m.a. í beinum útsendingum frá hverjum Framsóknarfundinum á eftir öðrum auk reglubundinna viðtala við fólk sem menn vissu hvar þeir hefðu ... Meira að segja í kosningasjónvarpi RÚV sáu þáttastjórnendur ástæðu til að hefja þáttinn á geðvonskuathugasemdum um mig og spurningu um hvort ég ætlaði ekki að biðjast afsökunar. Það var svo sem ágætt að fá tækifæri til að svara hinum undarlegu athugasemdum en þó hefur ekki verið venjan á Íslandi að menn séu krafðir um afsökunarbeiðni fyrir að á þá hafi verið ráðist.“
Spurningum ósvarað
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur enn ekki svarað öllum spurningum sem viðkoma Wintris-málinu svokallaða. Málið sýndi fram á að Sigmundur hafði verulegra persónulegra hagsmuna að gæta í málum sem viðkoma störfum hans fyrir hönd þjóðarinnar. Í siðareglum ráðherra kemur fram að ráðherrum beri að greina frá hagsmunum sínum, jafnvel þótt þeir liggi í gegnum fjölskyldumeðlimi, en Sigmundur seldi Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur, eiginkonu sinni, helmingshlut sinn í Wintris Inc. á einn dollara á gamlársdag 2009, degi áður en lög tóku gildi sem hefðu skyldað hann til að upplýsa um hlutinn sem þingmaður, en þrætti fyrir viðskiptin í viðtalinu sem hann gekk út úr. Félagið átti 523 milljóna króna kröfur á þrotabú íslensku bankanna.
„Ráðherra forðast árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar og gætir þess að persónuleg tengsl hafi ekki áhrif á störf sín. Takist honum ekki að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra af þessu tagi skal hann upplýsa um þá,“ segir í siðareglunum.
Hann hefur ekki gert nákvæma grein fyrir því hvaða eignir voru í Wintris Inc, hvernig var tilkynnt um sölu Sigmundar á hlut hans í félaginu til eiginkonu hans, hvernig var gerð grein fyrir félaginu á skattframtölum og hverjum var greint frá tilvist Wintris Inc. og hvenær?
Stundin hefur sent Sigmundi spurningar um grein hans í dag, meðal annars ásakanir á hendur Ríkisútvarpinu og starfsmönnum þess og svo fundi hans með yfirmönnum fjölmiðla:
1. Hvaða fréttamaður Ríkisútvarpsins kallaði þig „skíthæl“ í símtali eftir að forseti Íslands synjaði Icesave-lögunum staðfestingar?
2. Þekktirðu viðkomandi fréttamann og var um að ræða samskiptahætti sem tíðkuðust milli ykkar tveggja?
3. Hvaða starfsmaður RÚV brást æstur við og sagði „Hvað ert þú búinn að gera, nú hrynur allt!“
4. Var viðkomandi starfsmaður fréttastofu eða í dagskrárgerð?
5. Er SDG-hópurinn á RÚV skilgreindur hópur?
6. Hefurðu safnað gögnum um tjáningu starfsmanna RÚV á samfélagsmiðlum og vefmiðlum um þig og Framsóknarflokkinn?
7. Ertu í eftirfarandi setningu að vísa til mappa sem þú hafðir undir höndum á fundi með Páli Magnússyni, fyrrverandi útvarpsstjóra, á fundi þínum með honum sumarið 2013? „Svo ekki sé minnst á facebook, twitter og blogg þar sem sama fólk lýsir skoðunum sínum á mér og öðrum stjórnmálamönnum. Það eitt fyllir tvær þykkar möppur“.
8. Með hvaða yfirmönnum fjölmiðla áttirðu fundi með þegar þú varst forsætisráðherra?
9. Hefurðu gert athugasemdir við efnistök og umfjallanir RÚV á fundum þínum með Magnúsi Geir Þóraðarsyni, útvarpsstjóra, og Páli Magnússyni, fyrrverandi Útvarpsstjóra, sem fjallað hafa um fjárveitingar til RÚV?
Sigmundur hefur ekki svarað spurningunum.
Útvarpsstjóri hafnar afsökunarbeiðni
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri hefur svarað kröfu Sigmundar Davíðs um afsökunarbeiðni neitandi.
„Fjölmiðlar eiga að vera fulltrúar almennings og þeim ber að spyrja kjörna fulltrúa út í málefni er hann varðar. Það sama á við um Sigmund Davíð og aðra kjörna fulltrúa en auk þess að vera alþingismaður, þá var hann forsætisráðherra í þrjú ár og formaður í stjórnmálaflokki um árabil. Sigmundur Davíð hefur ítrekað fengið tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og fjallað hefur verið um þau í miðlum RÚV.“
Þá beinir Magnús Geir því til umkvartenda að leita til siðanefndar.
„Ef viðkomandi er ósáttur við þá afgreiðslu sem hann fær hjá stofnuninni, þá er hægt að beina málinu til sjálfstæðrar siðanefndar sem leggur sjálfstætt mat á framgöngu starfsmanna RÚV en að auki má benda á að allir geta skotið málum til Blaðamannafélags Íslands. Ef þingmaðurinn telur á sig hallað þá hvet ég hann til að beina málum í þennan formlega farveg sem er til staðar fyrir hann eins og aðra.“
Athugasemdir