Siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga tekur afgerandi afstöðu gegn notkun aflandsfélaga og telur slíka ráðstöfun fjármuna ekki samræmast kröfum um borgaralega ábyrgð, sérstaklega þegar um kjörna fulltrúa er að ræða.
Viðhorf siðanefndarinnar eru gjörólík þeim sjónarmiðum sem forystumenn ríkisstjórnar Íslands og stjórnarflokkanna hafa haldið á lofti eftir að í ljós kom að þrír ráðherrar hefðu notast við aflandsfélög. Formenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hafa ítrekað vísað því á bug að ámælisvert sé að kjörnir fulltrúar eða aðrir geymi fé í aflandsfélögum. Einungis skipti máli að uppræta skattsvik, en ljóst er að notkun aflandsfélaga torveldar slíkt.
„Það er auðvitað augljóslega talsvart flókið að eiga peninga á Íslandi,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra í viðtali við Stöð 2 eftir að í ljós kom að formaður Framsóknarflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefði notast við aflandsfélag. „Einhvers staðar verða peningar að vera,“ bætti hann við þegar spurningin var umorðuð. Síðar virðist Sigurður Ingi þó hafa skipt um skoðun.
Borgin leitaði til siðanefndar
Reykjavíkurborg óskaði eftir því þann 6. apríl 2016 að siðanefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga tæki til skoðunar málefni tengd aflandsfélögum í eigu borgarfulltrúanna Júlíusar Vífils Ingvarssonar og Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur. Júlíus hefur sagt af sér sem borgarfulltrúi en Sveinbjörg er í barnaeignarleyfi.
Siðanefndin fundaði þann 9. júní síðastliðinn og komst að niðurstöðu sem send var forsætisnefnd Reykjavíkurborgar.
Í álitinu er bent á þrjú atriði. Í fyrsta lagi er tekið fram að borgarfulltrúum beri skylda til að virða skuldbindingar sem gildar samþykktir borgarinnar leggja á þá, þar á meðal reglurnar um hagsmunaskráningu borgarfulltrúa sem borgarráð samþykkti þann 29. október 2009. Í öðru lagi er bent á að borgarfulltrúum beri að forðast hagsmunaárekstra og reglurnar um hagsmunaskráningu hafi meðal annars verið settar í þeim tilgangi að skilgreina leið til að uppfylla þá kröfu.
Aflandsfélög andstæð almannahag
Í þriðja lagi er fjallað um borgaralega ábyrgð. „Færa má rök fyrir því að eign í aflandsfélagi stangist á við a.m.k. andann í þeirri reglu að forðast beri misnotkun á almannafé (sbr. 2. gr. Siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Reykjavíkurborg). Þó einkaeign í aflandsfélagi feli vissulega ekki í sér ráðstöfun á almannafé, þá hafa verið færð rök fyrir því að eign í aflandsfélögum hafi alvarlegar afleiðingar fyrir opinberan rekstur og íslenskt efnahagslíf almennt,“ segir í bréfi siðanefndar. Þessu til stuðnings er vísað í greinina „Ruðningsáhrif aflandsfélaga“ eftir Guðrúnu Johnsen, hagfræðing og lektor í fjármálum, sem birtist í Kjarnanum í lok apríl en þar færir Guðrún ýmis rök fyrir því að notkun aflandsfélaga sé skaðleg almannahagsmunum.
„Kjósendur vænta þess að þeir sýni borgaralega ábyrgð“
„Í ljósi slíkra röksemda ber það ekki vott um sterka borgaralega ábyrgðarkennd að ráðstafa fjármunum sínum með þessum hætti. Kjörnir fulltrúar hljóta að teljast sérstaklega skuldbundnir almannahag og kjósendur vænta þess að þeir sýni borgaralega ábyrgð.“
Gengur þvert gegn því að sýna heilindi
Siðanefndin telur að skráðar siðareglur kjörinna fulltrúa séu liður í viðleitni til að sýna almenningi fram á að þeir starfi af heilindum að almannahag. „Sú ákvörðun að velja einkaeignum sínum ógagnsæjan stað í aflandsfélagi gengur þvert gegn slíkri viðleitni,“ segir í bréfinu.
Formaður siðanefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga Sigurður Kristinsson, heimspekingur og prófessor á hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri. Þá sitja í nefndinni þau Erling Ásgeirsson, bæjarfulltrúi í Garðabæ og Anna Guðrún Björnsdóttir, lögfræðingur og sviðsstjóri þróunar- og alþjóðarsviðs sambandsins.
Starfsmaður og ritari nefndarinnar er Valur Rafn Halldórsson, stjórnsýslufræðingur og sérfræðingur á hag- og upplýsingasviði sambandsins.
Athugasemdir