Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, segir að ummæli sem höfð voru eftir henni á Stöð 2 í gær hafi verið slitin rækilega úr samhengi. Hún hafi þó ekki horft á umrædda frétt.
„Ég heyrði nú ekki fréttina í heild sinni þarna en sá að hún hafði verið slitin rækilega úr samhengi. Að minnsta kosti fékk ég spurningu um hvort það yrði ekki að tilkynna hátíðargestum um það ef brot hefði verið framið á hátíðinni og ég svaraði með þeim hætti að oftast væru þessi brot framin, að þau fara fram á milli nátengdra aðila í heimahúsum eða einhverjum í lokuðum rýmum sem þau væru á og þá var ég að svara því til að ef einhver almannahætta væri uppi þá mundum við að sjálfsögðu upplýsa um það,“ segir Páley í viðtali við RÚV. „En mér skilst nú að spurningin hafi ekki fylgt svarinu svo það er búið að slíta það svar mitt talsvert úr samhengi.“
Þau umdeildu ummæli sem Vísir og Stöð 2 höfðu áður haft eftir Páleyju hljóða svo:
„Flest þessara brota eiga sér stað á milli tveggja einstaklinga í lokuðum rýmum þangað sem fólk fer yfirleitt sjálfviljugt. Það er bara staðreyndin. Við erum ekki að sjá þessi brot, sem betur fer og vonandi munum við ekki sjá það og reynum að fyrirbyggja með öflugri gæslu og svona, þessi almannafærisbrot. Og það er náttúrlega það sem sífellt er verkefni lögreglu. Að reyna að tryggja löggæslu á almannafæri og allstaðar svo fólk sé óhult þar sem það er á gangi á ýmsum vettvangi. En það er erfiðara við að eiga, og þess vegna eru þetta svona viðkvæm brot, þau gerast mjög oft á milli tengdra og nátengdra aðila inni í lokuðu rými.“
Sjá einnig:
Umdeildur lögreglustjóri skorar á bæjarstjórann að bjóða sig fram til Alþingis
Elliði kemur Páleyju til varnar en ríkislögreglustjóri segir
þagnarkröfu hennar „stílbrot“
Athugasemdir