Félagið Lindarhvoll er óbundið af stjórnsýslulögum við sölu á stöðugleikaeignum ríkissjóðs sem metnar hafa verið á tæplega 400 milljarða króna. Umboðsmaður Alþingis benti efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis á þetta þegar Bjarna Benediktssyni, þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, var veitt lagaheimild til að stofna félagið í fyrra. Lindarhvoll annast umsýslu, fullnustu og sölu þeirra eigna sem runnu ríkissjóði í skaut eftir að kröfuhafar fallinna viðskiptabanka og sparisjóða reiddu fram svonefnd stöðugleikaframlög. Félagið er einkaaðili og taka stjórnsýslulög ekki til þess.
Þetta kemur skýrt fram í svarbréfi umboðsmanns Alþingis frá því í október eftir að borist hafði kvörtun vegna sölunnar á eignarhlut ríkisins í Sjóvá. Segist umboðsmaður hafa bent Alþingi á að Lindarhvoll yrði óbundið af stjórnsýslulögum þegar frumvarpið um stofnun félagsins var til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar var þó tekið sérstaklega fram að „ákvæði stjórnsýslulaga og upplýsingalaga skuli lögð til grundvallar starfsemi félagsins eftir því sem við á og mælt er fyrir um í hlutaðeigandi lögum“. Þessari yfirlýsingu var ekki fylgt eftir í lagatextanum sjálfum.
Athugasemdir