„Ég harma það að ríkissaksóknari virðist hafa byggt svör sín til RÚV á sjálfsréttlætingum Öldu Hrannar en ekki gögnum málsins,” segir Garðar Steinn Ólafsson, lögmaður Gunnars Scheving Thorsteinssonar sakbornings í LÖKE-málinu, í samtali við Stundina.
Garðar hefur gagnrýnt Öldu Hrönn Jóhannsdóttur aðstoðarlögreglustjóra harðlega fyrir að hafa, sem staðgengill lögreglustjóra á Suðurnesjum, rannsakað meint brot lögreglumannsins án þess að skriflegt umboð frá ríkissaksóknara lægi fyrir.
Ríkissaksóknari svaraði fyrirspurn RÚV um þetta í gær á þá leið að umboð til rannsóknarinnar hefði verið veitt í nóvember árið 2013 án þess þó að skrifleg gögn um þetta sé að finna hjá embættinu.
„Auðvitað er ekkert eðlilegt eða löglegt við að fram fari sex mánaða rannsókn á meintum alvarlegum brotum lögreglumanns án þess að opnað sé mál í málaskrá, hann hafi stöðu sakbornings eða gerðar séu lögregluskýrslur um rannsóknaraðgerðir," segir Garðar.
Athugasemdir