Alda Hrönn Jóhannsdóttir, aðallögfræðingur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, hefur stigið til hliðar eftir að settur héraðssaksóknari hóf rannsókn á störfum hennar í LÖKE-málinu svonefnda. Henni er gefið að sök að hafa misbeitt lögregluvaldi við rannsókn málsins.
Lögreglan greindi frá því í fréttatilkynningu í dag að starfsmaður hefði stigið til hliðar vegna rannsóknar. Samkvæmt upplýsingum Stundarinnar er umræddur starfsmaður Alda Hrönn, aðallögfræðingur embættisins, fyrrverandi aðstoðarlögreglustjóri og nánasta samstarfskona Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra.
Uppfært kl. 17:20:
Alda Hrönn hefur sent út eftirfarandi fréttatilkynningu:
Ég vísa alfarið á bug þeim ásökunum sem eru tilefni rannsóknarinnar. Sú aðkoma sem ég hafði að umræddu máli féll undir starfsskyldur mínar í mínu fyrra starfi. Rannsóknir á ætluðum brotum lögreglumanna í starfi voru á þessum tíma, lögum samkvæmt, á forræði Ríkissaksóknara og það var einnig í þessu máli. Embætti Ríkissaksóknara óskaði eftir aðstoð embættis Lögreglustjórans á Suðurnesjum við meðferð málsins og það voru lögreglumenn þess embættis sem önnuðust rannsóknina. Ég kom eingöngu að umræddu máli sem löglærður fulltrúi. Rannsókn málsins leiddi til þess að embætti Ríkissaksóknara höfðaði sakamál á hendur lögreglumanninum sem lauk með því að Hæstiréttur Íslands sakfelldi hann fyrir brot í starfi.
Lögbundin þagnarskylda kemur í veg fyrir að ég geti tjáð mig frekar um efnisatriði málsins. Ég get hins vegar upplýst að ég rækti starfsskyldur mínar af fyllstu fagmennsku og í samræmi við meðferð slíkra mála.
Ég hef skilning á að fólk leiti réttar síns finnist því á sér brotið. Á hinn bóginn þykir mér hart að sæta rannsókn fyrir það eitt að sinna starfi mínu í samræmi við starfsskyldur mínar.
Ég vona að rannsókn þessari ljúki hið fyrsta og trúi staðfastlega að hún muni leiða hið sanna í ljós og hreinsa mig af öllum ásökunum.
Athugasemdir