Helgi Jean Claessen, eigandi og fyrrum ritstjóri vefmiðilsins menn.is, er maðurinn sem kærði systurnar Malín Brand og Hlín Einarsdóttur í gær fyrir fjárkúgun. Í samtali við Stundina segist Helgi ekki getað tjáð sig um málið að svo stöddu, vegna beiðni frá bæði lögreglu og lögmanni. Hann segir þó að ásakanir systranna hafi verið fáranlegar og þegar lögreglurannsókn sé lengra á leið komin muni hann lýsa málsatvikum nánar.
DV greindi fyrst frá því í gær að annar maður hefði kært systurnar. Vísir greindi svo frá því að systurnar hefðu sakað Helga um að hafa nauðgað Hlín eitt laugardagskvöld í apríl. Á mánudeginum hefðu þær haft samband við Helga og krafist þess að hann borgaði 700 þúsund krónur ella yrði hann kærður til lögreglu.
Malín Brand tók svo við peningunum og afhenti kvittun, sem var skrifuð á bréfsefni Morgunblaðsins, þar sem staðfest var að hann hefði greitt upphæðina. Kvittunin er nú hluti af rannsóknargögnum lögreglunnar. Systurnar voru báðar yfirheyrðar vegna málsins í gær og stóð yfirheyrslan fram á kvöld.
Athugasemdir