„Hver sá sem enn er haldinn þeirri ranghugmynd að Sjálfstæðisflokkurinn sé markaðssinnaður flokkur ætti að horfa á Ragnheiði Elínu reyna að verja ríkisstyrki til fyrirtækis í eigu frændfólks Bjarna Ben vegna fjárfestingar sem þau segja að muni annars ekki standa undir sér þótt aðrir standi í svipuðum rekstri.“
Þannig skrifar Jón Steinsson, dósent í hagfræði við Columbia-háskóla í New York, á Facebook í kvöld. Í Kastljósi var fjallað um fjárfestingarsamning ríkisins við Matorku vegna bleikjueldis á Reykjanesi, en samkvæmt samningnum fær fyrirtækið ríkisstyrk upp á tæpar 430 milljónir króna auk þjálfunarstyrks sem gæti orðið allt að 295 milljónir. Þannig er hlutfall ívilnana nærri 60 prósent af heildarfjárfestingunni.
Matorka ehf. er í eigu svissneska fyrirtækisins Matorku Holding AS, en í stjórn þess sitja þeir Benedikt Einarsson og Eiríkur Svavarsson. Benedikt er frændi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og var viðskiptafélagi hans á árunum fyrir hrun. Þá á hann hlut í Thorsil, fyrirtæki sem nýlega gerði fjárfestingarsamning við stjórnvöld vegna kísiliðju á Reykjanesi, en þar að auki var hann á meðal þeirra fjárfesta sem keyptu hlut í Borgun af Landsbankanum bak við luktar dyr í fyrra.
Athugasemdir