Þorsteinn Víglundsson, félagsmálaráðherra, vill ekki útskýra rangfærslur sínar um fjármál Landspítalans né biðjast afsökunar á framgöngu sinni gagnvart stjórnendum stofnunarinnar.
Þorsteinn var staðinn að því í lok apríl og byrjun maí að hafa sett fram rangar tölur um útgjöld til Landspítalans í viðtali við Morgunblaðið og ýkt verulega fjárframlög hins opinbera til málaflokksins. Þegar stjórnendur gerðu athugasemdir við málflutning ráðherra sakaði hann þá um „talnaleikfimi“.
Stundin hefur tvívegis sent ráðherra og aðstoðarmönnum hans fyrirspurn, óskað eftir skýringum og spurt hvort Þorsteinn ætli að biðjast afsökunar á því að hafa sett fram rangfærslur um fjármál spítalans. Engin svör hafa borist.
Þorsteinn steig fram í viðtali við Morgunblaðið þann 27. apríl, gagnrýndi stjórnendur Landspítalans og fullyrti að búið væri að endurreisa fjármögnun spítalans úr lægð eftirhrunsáranna. „Það hefur orðið veruleg aukning á raunútgjöldum til LSH á undanförnum árum og stefnt er að því að svo verði áfram,“ sagði Þorsteinn.
Viðtalinu fylgdi línurit sem byggði á tölum frá ráðherra sjálfum. Vitnaði Þorsteinn sérstaklega til línuritsins og til eigin „úttektar og áætlana“ og notaði sem rökstuðning fyrir því að raunútgjöld til Landspítalans hefðu verið stóraukin á undanförnum árum.
Í kjölfar viðtalsins birti Landspítalinn athugasemdir vegna staðhæfinga Þorsteins. Þar sagði meðal annars: „Landspítali kannast ekki við þær tölur sem lagðar eru til grundvallar greiningu ráðherra fyrir árin 2016 og 2017. Hin meinta hækkun ríkisframlags til Landspítala frá árinu 2015 hefur ekki átt sér stað.“
Í svari ráðherrans á Facebook við athugasemdum Landspítalans viðurkenndi Þorsteinn að línurit sitt hefði ekki sýnt raunútgjöld til LSH, eins og fullyrt var í Morgunblaðinu, heldur heildarútgjöld Landspítalans. „Spítalinn hefur gert athugasemd við þessa framsetningu mína og segist ekki kannast við þessar tölur, hvorki á undanförnum árum né í áætlunum. Tölur áranna 2006 til 2016 eru fengnar úr ársreikningum Landspítalans sjálfs og er þar horft til heildarútgjalda en ekki ríkisframlags eins og sér,“ skrifaði hann.
Eins og bent var á í pistli Gunnars Jörgens Viggóssonar á Stundinni þann 5. maí síðastliðinn standast tölur ráðherra ekki jafnvel þótt skýringar hans séu teknar gildar og horft sé til heildarútgjalda Landspítalans. Línuritið ýkir verulega aukninguna á fjárútlátum Landspítalans í seinni tíð og sýnir t.d. um 20% aukningu milli áranna 2015 og 2017 þótt raunveruleg útgjaldaaukning Landspítalans sé nær 10% núvirt með vísitölu neysluverðs og 12,5% þegar kostnaði vegna byggingar nýs Landspítala er bætt við.
Stjórnendur Landspítalans hafa gagnrýnt harðlega fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar og varað við vanfjármögnun heilbrigðiskerfisins. Þegar rætt var um fjármálaáætlunina á Alþingi þann 24. maí sagði Nichole Leigh Mosty, formaður velferðarnefndar Alþingis, forstjóra Landspítalans stunda „pólitíska baráttu“ og kallaði eftir því að sett yrði stjórn yfir Landspítalann svo forstjórinn hætti að „betla pening“ af fjárveitingarvaldinu.
Athugasemdir