Yfirvöld í Peking ætla sér að rafvæða allan leigubílaflota borgarinnar í tilraun til þess að bæta loftgæði, en mengun er gríðarlegt vandamál í kínverskum borgum. Um 70 þúsund leigubílar eru í Peking, af þeim eru aðeins 3 þúsund sem ganga fyrir rafmagni. Samhliða því að rafvæða hina 67 þúsund leigubílana hafa borgaryfirvöld hvatt íbúa borgarinnar til þess að kaupa sér einnig rafbíla.
Breytingin mun þó taka nokkur ár. Hún hefst á því að allir nýir leigubílar sem koma á götur borgarinnar þurfa að ganga fyrir rafmagni. Það gæti þó þýtt að rúman áratug tæki að skipta gamla bílaflotanum út. Einnig mun átakið þýða aukinn kostnað fyrir leigubílstjóra, en verð á nýjum rafbílum í Kína er tvöfalt á við sambærilegan bíl sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti.
Athugasemdir