Eggert Claessen, framkvæmdastjóri fjárfestingarsjóðsins Frumtaks sem er að stóru leyti í eigu íslenskra lífeyrissjóða, var eigandi og stjórnandi félaga í skattaskjólinu Tortólu á árunum fyrir hrunið og eftir það. Viðskipti Eggerts á Tortólu ná allt til ársins 2012 þegar eignarhaldsfélag í hans eigu, Vitta ehf., varð hluthafi í einu Tortólafélaginu sem hann tengist. Félög sem Eggert átti eða stýrði fengu meðal annars lán frá Landsbankanum í Lúxemborg til að fjárfesta í hlutabréfum í Landsbanka Íslands og stunda annars konar viðskipti. Félögin sem Eggert tengist á Tortólu eru meðal annars félög sem heita Caldex Holdings Ltd., A24 International Ltd. og AE Partners Ltd.
Þetta kemur fram í Panama-skjölunum svokölluðu, viðskiptagögnum frá panamísku lögmannsstofunni Mossack Fonseca sem lekið var til þýska blaðsins Süddeutsche Zeitung og þaðan til blaðamannasamtakanna ICIJ. Stundin vinnur greinina í samstarfi við fjölmiðlafyrirtækið Reykjavík Media ehf. en sá miðill fékk gögnin frá ICIJ og heldur utan um umfjöllun um þau á Íslandi.
Meðfjárfestar Eggerts og samstarfsmenn í umræddum Tortóla-fyrirtækjum eru þeir Ágúst Guðmundsson og Ágúst Björnsson. Eggert og Ágúst Guðmundsson voru viðskiptafélagar í upplýsingatækniiðnaðinum á Íslandi í kringum síðustu aldamót og áttu meðal annars saman fyrirtækið Tölvumiðlun sem vann að gerð upplýsingakerfa fyrir heilbrigðisstofnanir.
Þeir voru um tíma báðir prókúruhafar Tortóla-félagsins AE Partners Ltd. á árunum 2005 til 2007 samkvæmt Panama-skjölunum og svo átti hvor þeirra um sig sitt eigið Tortóla-félag.
„Þetta var ekki skattaundanskot“
Eggert segir að fyrirtæki hans Caldex Holdings Ltd. hafi verið stofnað af Landsbankanum í Lúxemborg þegar hann gerði eignastýringarsamning við bankana. Í Panama-skjölunum er meðal annars að finna upplýsingar um 20 milljóna lán frá Landsbankanum í Lúxemborg til Caldex frá árinu 2004 til að kaupa hlutabréf í bankanum. Eggert segist hafa gefið fyrirmæli um að félagið yrði leyst upp í febrúar árið 2008. Hann segir að eignastýring Landsbankans í Lúxemborg hafa haft umboð til að stunda fjárfestingar fyrir hans hönd í gegnum Caldex.
Hann segir að á þeim tíma sem félagið var stofnað fyrir hans hönd hafi stofnun slíkra félaga verið algeng í bönkunum. „Þú verður að athuga að þetta er árið 2000. Þetta er svo gamalt; þetta var bara standard þjónustuframboð á þessum tíma. Ég hef ekkert að fela í þessu máli. Þetta var ekki skattaundanskot og þetta var allt gefið upp á framtalinu mínu.“
„Ég hef ekkert að fela í þessu máli.“
Eggert segir að stofn þeirra fjármuna sem hann hafi verið með í eignastýringu í Lúxemborg hafi verið söluhagnaður af fyrirtæki sem hann seldi um aldamótin auk þess sem hann fékk lán frá bankanum. „Þetta er ástæðan fyrir því að ég endaði á að skulda þeim eitthvað. Í hruninu hreinsaði ég allt út og hef ekki keypt nein hlutabréf síðan. Þessi reynsla varð mér persónulega mjög erfið. Ég hef ekki haft trú á þessum hluta markaðarins eftir að þetta gerðist, eftir hrun.“
Sex lífeyrissjóðir eru stórir fjárfestar
Frumtak, fyrirtækið sem Eggert stýrir, er fjárfestingarsjóður sem stofnaður var rétt eftir hrunið árið 2008 og er stærsti hluthafi sjóðsins Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins með 37 prósenta hlut. Þar á eftir koma Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður með samtals tæplega 30 prósenta eignarhlut. Stóru viðskiptabankarnir þrír eru einnig í hluthafahópnum auk Sameinaða lífeyrissjóðsins, Stapa lífeyrissjóðs og Söfnunarsjóðs lífeyrisréttinda.
Frumtak II er svo annar fjárfestingarsjóður sem Eggert stýrir auk þess sem hann á sjálfur hlut í þeim sjóði í gegnum fjárfestingarfélag sem heitir Eniga ehf. Eignarhald á þeim sjóði er nær alfarið í höndum lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi eru stærstu hluthafarnir með tæplega 20 prósenta hlut hver. Sá sjóður var stofnaður í ársbyrjun í fyrra.
Frumtaks-sjóðirnir hafa fjárfest í fjölmörgum fyrirtækjum á Íslandi á síðustu árum. Meðal annars í Arctic Trucks, Meniga og Cintamani.
Eggert undirstrikar að hann hafi verið hættur að nota félagið á Tortólu þegar hann varð framkvæmdastjóri Frumtaks og að hann hafi verið í „góðri trú“ þegar hann stofnaði það í gegnum Landsbankann í Lúxemborg.
Gerði aldrei neitt segir Ágúst
Í samtali við Stundina segir Ágúst Guðmundsson að þeir Eggert hafi stofnað AE Partners vegna fjárfestinga sem þeir hugðust fara í erlendis en að svo hafi ekkert orðið af þeim fjárfestingum og að Ágúst Björnsson hafi tekið fyrirtækið yfir. „AE Partners var félag sem var stofnað til að vera evrópskt dótturfélag bandarísks félags sem heitir Alterna. Þetta átti að vera Alterna Europe. En það varð ekkert úr þessu. Við reyndum að fara af stað með þetta en þetta gekk ekki.“
Aðspurður um af hverju þeir hafi notað félag á Bresku Jómfrúareyjum undir þessa ætluðu starfsemi segir Ágúst að það hafi verið auðveld lausn. „Þetta var erlend starfsemi og miklu auðveldara að stofna bankareikning þarna en í Bretlandi. Það getur tekið tvo eða þrjá mánuði. Þannig að þetta var bara einfaldara.“ Eggert segir sömu sögu um þetta félag og Ágúst Guðmundsson og segir hann að hann hafi meira að segja nánast verið búinn að gleyma tilvist þess.
Auk AE Partners þá var Ágúst Guðmundsson prókúruhafi félagsins A24 International Ltd., ásamt eiginkonu sinni, og segir hann að það hafi verið stofnað til að stunda fjárfestingar. „Þetta var bara okkar félag,“ segir Ágúst en í Panam-skjölunum kemur fram að fyrirtækið hafi meðal annars greitt kredikortareikninga fyrir þau hjónin og er sérstök stjórnarsamþykkt þar sem þessi heimild er veitt. „Þetta félag borgaði meðal annars ferðakostnað,“ segir Ágúst um þetta atriði.
Í Panama-skjölunum er svo meðal annars að finna lánasamning á milli A24 International Ltd. og Landsbankans í Lúxemborg upp á 120 milljónir króna.
Félag Eggerts varð hluthafi í Caldex
„Þetta er hluti af ennþá leiðinlegri þætti í þessari sögu,“ segir Eggert aðspurður um af hverju eignarhaldsfélag hans, Vitta ehf., hafi orðið hluthafi í Tortóla-félagi hans, Caldex, árið 2012. Hann segir að þetta hafi verið gert eftir hrun vegna þess að Landsbankinn í Lúxemborg hafi gert kröfu um að félagið sem átti eignir í bankanum væri starfandi og því hafi hann orðið að endurvekja félagið til að geta náð eignum þess út úr búinu í Lúxemborg. Hann lét því Vittu ehf. vera hluthafa í Tortóla-félaginu þar sem það félag hefur stundað viðskipti í gengum Landsbankann í Lúxemborg - félagið á meðal annars orlofshús á Spáni. „Fyrir mér þá var þetta ekki neinn rekstur,“ segir Eggert aðspurður um þennan þátt í starfsemi Caldex.
Í kjölfarið var félagið afskráð segir Eggert.
Athugasemdir