Kristján Vilhelmsson, útgerðarmaður og annar stærsti hluthafi Samherja á Akureyri, átti hlut í félagi í skattaskjólinu Tortólu samkvæmt Panamagögnunum. Félagið sem Kristján var skráður fyrir á árunum 2006 til 2009 heitir Hornblow Continental Corp. Nafn Kristján og félagsins er að finna í gagnagrunninnum um Panamaskjölin sem blaðamannasamtökin ICIJ gerðu opinberan í gær. Félagið á Tortólu var stofnað í gegnum lögmannsstofuna Mossack Fonseca í Panama í ársbyrjun 2006.
Samherji er langstærsta útgerðarfélag Íslands og er einungis um þriðjungur starfsemi fyrirtækisins á Íslandi. Fyrirtækið er langkvótahæsta útgerð landsins þegar litið er aflaheimilda Samherja sjálfs sem og dótturfélaga þess, Síldarvinnslunnar, Útgerðarfélags Akureyringa og Polaris Seafood meðal annarra.
Tekið skal fram að ekki er ólöglegt að eiga félög í skattaskjólum og þrátt fyrir að fólk eigi slík félög er ekki þar með sagt að viðkomandi hafi brotið lög. Skattahagræði og leynd um eignarhald eru hins vegar tvær af helstu ástæðunum fyrir notkun fólks á fyrirtækjum í skattaskjólum.
Stundin náði ekki í Kristján Vilhelmsson til að spyrja hann um félagið.
Á nærri sjö milljarða eignir
Kristján Vilhelmsson á 35,7 prósenta hlut í Samherja og er þar með næststærsti hluthafinn á eftir fyrirtæki sem heitir Eignarhaldsfélagið Steinn ehf. sem er í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra fyrirtækisins og frænda hans, sem á rúmlega 36 prósenta hlut. Hann hefur um árabil verið æðsti stjórnandi Samherja ásamt Þorsteini og hefur gengt starfi útgerðarstjóra hjá fyrirtækinu. Kristján hefur síðastliðin ár verið einn skattahæsti maður landsins og einn sá auðugasti samkvæmt skattaupplýsingum sem birtar eru á hverju ári. Árið 2013 var Kristján til dæmis sagður vera ríkasti Íslendingurinn, ásamt eiginkonu sinni Kolbrúnu Ingólfsdóttur, en hrein eign þeirra var þá sögð vera 6,8 milljarðar króna.
„Ég kem alveg af fjöllum“
Hefur aldrei heyrt minnst á félagið
Kristján Vilhelmsson er hins vegar ekki eini hluthafinn í Hornblow Continental Corp því þar eru nöfn einna tólf annarra einstaklinga og fyrirtækja einnig. Meðal þeirra má nefna Sævar Helgason, Ásgeir Ásgeirsson, Mýri ehf, Gnóg ehf. og nokkur erlend fyrirtæki. Engar upplýsingar koma fram um starfsemi fyrirtækisins í gögnunum sem ICIJ gerði opinber í gær.
Einn af hluthöfunum í Hornblow Continental Corp, Hörður Jónsson sem er eigandi Gnógs ehf., segir að hann hafi ekki heyrt minnst á félagið áður. Hann segist hafa verið í eignastýringu í Landsbanka Íslands og að starfsmenn bankans hafi haft umboð til að stunda fjárfestingar fyrir hans hönd en að hann hafi þurft að samþykkja viðskiptin skriflega. „Ég kannast bara ekki við það. Var þetta í gegnum Landsbankann eða? Ég kem alveg af fjöllum. Ég hef bara aldrei heyrt um þetta áður. Bankinn hlýtur bara að hafa stofnað þetta upp á sitt einsdæmi. Er þetta hlutafélag eða? Ég var í einkabankaþjónustu hjá Landsbankanum en þeir létu mann alltaf skrifa undir. Ég veit ekki meira um þetta. Þeir hljóta bara að hafa farið frjálslega með heimild sín til fjárfestinga fyrir mig,“ segir Hörður.
Miðað við þetta svar Harðar þá var Hornblow Contintental Corp stofnað af Landsbankanum fyrir einhverja viðskiptavini sína. Eins og komið hefur fram þá notaði Landsbankinn lögmannsstofuna Mossack Fonseca í Panama til að stofna skúffufélög fyrir viðskiptavini sína en skattalögfræðingur bankans, Kristján Gunnar Valdimarsson, er meðal annars sjálfur með félag í Panamaskjölunum sem finna má í gagnagrunni ICIJ.
Frekari upplýsingar um fyrirtækið liggja hins vegar ekki fyrir að svo stöddu. Fjölmiðillinn Reykjavík Media ehf. hefur hins vegar boðað að á næstunni verði birt umfjöllun um útgerðarmenn og sjávarútvegsfyrirtæki í Panamaskjölunum.
Athugasemdir