Innanríkisráðuneytið útilokar ekki að endursendingum hælisleitenda til Ítalíu og Ungverjalands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar verði hætt. Í ráðuneytinu er nú unnið að söfnun upplýsinga og gagna sem lögð verða til grundvallar ákvörðunum um endursendingar flóttafólks. „Meðal annars eru skoðuð sjónarmið og framkvæmd annarra ríkja, einkum Norðurlandanna, svo og niðurstöður Mannréttindadómstóls Evrópu. Vænta má þess að um eða upp úr mánaðamótum verði þessari vinnu lokið,“ segir í svari ráðuneytisins við fyrirspurn Stundarinnar um málið.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur lýst því yfir úr ræðustól Alþingis að ekki sé öruggt að senda hælisleitendur til Grikklands, Ítalíu og Ungverjalands. „Íslendingar senda ekki hælisleitendur til baka til Grikklands nú um stundir. Grikkland er ekki talið öruggt land. Það á einnig við um Ítalíu og Ungverjaland, þau eru til viðbótar ekki talin örugg lönd. Það er ekki óhætt að senda fólk til baka þangað,“ sagði hún í svari við fyrirspurn um beitingu Dyflinnarreglugerðarinnar þann 17. september síðastliðinn.
Árið 2010 ákvað dómsmála- og mannréttindaráðherra að stöðva endursendingar hælisleitenda til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Þrátt fyrir yfirlýsingar Ólafar hefur engin sams konar ákvörðun verið tekin um þá hælisleitendur sem sótt hafa um hæli á Ítalíu og í Ungverjalandi og eru á ábyrgð þeirra ríkja samkvæmt Dyflinnarsamkomulaginu. Endursendingar til Grikklands voru stöðvaðar í kjölfar tilmæla Mannréttindadómstóls Evrópu til Noregs og breyttrar afstöðu norskra stjórnvalda.
Athugasemdir