Héraðssaksóknara virðist sem alvarlegar ásakanir á hendur lögreglufulltrúa, sem vikið var frá störfum með ólögmætum hætti í janúar, eigi rætur að rekja til samskiptaörðugleika í fíkniefnadeild, orðróms meðal brotamanna og jafnvel persónulegs ágreinings innan lögreglunnar.
Þetta kemur fram í rökstuðningi héraðssaksóknara fyrir þeirri ákvörðun embættisins að fella niður rannsókn á máli lögreglufulltrúa í fíkniefnadeild sem sakaður hafði verið um óeðlileg samskipti við brotamenn. Stundin hefur undir höndum stytta útgáfu af niðurfellingarbréfinu en niðurstaða héraðssaksóknara er mjög afgerandi.
Fullyrðir héraðssaksóknari að eftir ítarlega rannsókn – þar sem meðal annars voru teknar skýrslur af 29 vitnum og tveimur mönnum með réttarstöðu sakbornings – liggi fyrir að ekkert hafi komið fram sem renni stoðum undir það að lögreglufulltrúinn hafi með neinum hætti gerst brotlegur í starfi.
Að sama skapi hefur innanríkisráðuneytið, eins og Stundin hefur áður greint frá, komist að þeirri niðurstöðu að með því að víkja lögreglufulltrúanum frá störfum hafi lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, farið á svig við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar enda hafi ákvörðunin byggt á orðrómi og ásökunum en ekki rannsóknargögnum.
Rannsóknin umfangsmikil
Máli lögreglufulltrúans var vísað til embættis héraðssaksóknara þann 8. janúar síðastliðinn og hófst þá viðamikil og ítarleg rannsókn. Skoðuð voru gögn frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og ríkissaksóknara en jafnframt tölvugrunnar og sameiginlegt drif fíkniefnadeildar.
„Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að ekki væri neitt athugavert við skráningar í kerfin og ekkert sem benti til þess að brot hafi verið framin í tengslum við upplýsingaaðila,“ segir í niðurstöðu héraðssaksóknara.
„Þá var fengin heimild hjá kærða til að skoða tölvupóst hans hjá LRH og var tölvupóstur skoðaður með sérstöku leitarforriti þar sem leitað var að nánar tilgreindum nöfnum og orðum sem tengsl höfðu við málið. Niðurstaðan á skoðun á tölvupóstinum er sú að ekkert þar renni stoðum undir að kærði hafi gerst brotlegur í störfum sínum.“
Greint er frá því að saksóknaraembættið hafi óskað eftir upplýsingum frá bönkum og fjármálastofnunum að fengnu samþykki kærða og eiginkonu hans. Ekkert athugavert hafi þar komið fram.
„Við rannsókn málsins var farið ítarlega yfir öll þau 22 tilvik sem tilgreind höfðu verið sem óeðlileg af hálfu kærða í starfi hans. Niðurstaðan var sú að í einhverjum tilvikum var eingöngu um að ræða vangaveltur einstakra starfsmanna um óeðlileg vinnubrögð sem enga stoð virtust eiga í gögnum, í öðrum tilvikum lágu fyrir gögn sem sýndu að vinnubrögð kærða voru fullkomlega eðlileg þrátt fyrir framburð samstarfsmanna um annað og loks voru tilvik nefnd sem gögn sýndu að kærði hafði enga aðkomu haft af.“
Athugasemdir