Stundin birtir einn kafla á dag úr bók Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur, Á mannamáli, sem miðar að því að eyða ranghugmyndum um kynferðisofbeldi. Viðfangsefni bókarinnar er kynbundið ofbeldi, það er ofbeldi þar sem meirihluti brotaþola eru konur og miðast dæmin við það. Höfundur tekur þó fram að kynferðisofbeldi getur verið beitt af öllum kynjum og beinst gegn fólki af öllum kynjum.
Klæðaburður
Algengt er að konur sem er nauðgað séu spurðar af lögreglu eða yfirvöldum, vinum eða vandamönnum, maka eða fjölskyldu, hvernig þær voru klæddar þegar árásin átti sér stað. Oft felur spurningin í sér meðvitaða eða ómeðvitaða ásökun um að viðkomandi hefði getað afstýrt atburðinum, hefði hún bara sleppt því að fara í stutta pilsið það kvöldið. Flegni bolurinn, þú veist, var hann ekki svolítið mikið af hinu góða?
Hugtakið „ögrandi klæðaburður“ skýtur gjarnan upp kollinum í þessari umræðu og nú verður farið betur ofan í saumana á því, í orðsins fyllstu merkingu.
Áður en lengra er haldið skal tekið fram að við skýrslutöku og yfirheyrslur lögreglu skiptir fatnaður sem brotaþolinn klæddist þegar árásin átti sér stað máli af ýmsum ástæðum. Stundum er um mikilvæg sönnunargögn að ræða, s.s. óhreinindi eða jarðveg á fatnaði, blóðbletti, sæði eða aðra líkamsvessa eða ummerki um valdbeitingu, s.s. rifin föt. Ekki er því spurt út í klæðnað að ósekju. Hins vegar á ekki að skipta neinu máli hvort viðkomandi klæðnaður teljist ögrandi eður ei.
Burtséð frá spurningum lögreglunnar er algeng og lífseig ranghugmynd að konur kalli yfir sig kynferðisofbeldi með klæðaburði sínum. Prófum að yfirfæra þennan hugsunarhátt á líkamsárásir. Ímyndum okkur að maður nokkur verði fyrir tilefnislausri árás í miðbæ Reykjavíkur af höndum ókunnugra aðila, líkt og átti sér stað þann 7. júlí 2007. Samkvæmt lýsingu brotaþolans réðust fjórir ókunnugir menn fyrirvaralaust á hann og félaga hans. Eina skýringin sem hann gat gefið á þessari hegðun var að árásarmennirnir hafi „augljóslega verið í leit að slagsmálum“. Myndi einhver taka árásarmennina alvarlega ef þeir reyndu að skýla sér á bakvið klæðaburð brotaþolans? Kommonn ma’r, hann var í Diesel gallabuxum. Hann var að leita sér að vandræðum, skilurðu.
Mette Lisby, vinsæll skemmtikraftur í Danmörku, gat vart orða bundist þegar hugarfar karlpeningsins í landinu gagnvart kynferðisofbeldi var rannsakað og niðurstöðurnar birtar. Hún skrifaði eftirfarandi hugleiðingu í danskt dagblað:
Í vikunni leiddu niðurstöður könnunar í ljós að fjórði hver danskur karlmaður lítur svo á að það sé konunni sjálfri að kenna ef hún var klædd á ögrandi hátt þegar henni var nauðgað. Þetta er merkileg röksemdafærsla. Í nauðgunarréttarhöldum falla setningar á borð við: „Já en konan var jú klædd eins og vændiskona, svo ég hélt að hún væri til í tuskið.“ Í nauðgunarmálum eru svona röksemdafærslur teknar alvarlega! … Myndi búðarþjófur verja sig með því að segja: „Já en vörunum var stillt upp á glámbekk, þannig að ég hélt ég mætti bara fá mér“ … Getur bankaræningi varið sig með því að hans hafi verið svo freistað því bankinn fór ekki leynt með að hann ætti peninga? „Hugsaðu þér herra dómari, þarna sátu þeir og töldu peningana sína beint fyrir framan nefið á mér!“ … Og næst þegar ég rekst á karl í málningargalla get ég þá gengið út frá því að það „liggi í loftinu“ að hann vilji mála íbúðina mína þegar MÉR sýnist? Eða þurfa menn hreinlega að læra það að vera ekki að dandalast um í málningargalla? ... Auk þess klæða ungar konur sig ekki á ögrandi hátt til að stæla vændiskonur, heldur til að stæla amerískar söngkonur – og það heldur því enginn fram að maður sé skyldugur samkvæmt lögum til að halda tónleika þó maður klæði sig eins og Britney Spears?
Ég flutti búferlum á meðan á ritun þessarar bókar stóð. Nýja íbúðin var skurðstofugræn og svínsbleik. Skyndilega fékk ég ekki þverfótað fyrir óskammfeilnum mönnum sem dönduluðust um í málningargalla, fullkomlega ómeðvitaðir um hversu ögrandi þeir komu mér fyrir sjónir.
Hver á annars að ákveða hvað sé „ögrandi“? Er Britney ögrandi af því hún er í netsokkabuxum? Eða nei annars, hún missti víst kynþokkann þegar hún rakaði sig sköllótta, það er ekki sexý en það er ögrandi, eða hvað? Og ef manni finnst þingkona í buxnadragt kynæsandi því hún ögrar jakkafataveldinu, er hún þá orðin skotmark fyrir nauðgara? Er hún að „biðja um það“ með ögrandi klæðaburði?
Bæjarstjórnin í Kota Bharu í Malasíu mæltist til þess árið 2008 að konur beri ekki á sig varalit né klæðist háum hælum, því þannig geti þær viðhaldið virðingu sinni og komið í veg fyrir nauðganir. Það er naumast að varalitur og hælaskór hafa vald. Persónulega hef ég átt ófá eintök af hvoru tveggja, og skil ekkert í því hvað menn í kringum mig hafa getað hamið frumhvatir sínar. Hvernig eru hælaskórnir eiginlega þarna í Malasíu?
Hugtakið „ögrandi klæðaburður“ er einstaklingsbundið. Víða í heiminum þykir það ögrandi ef konur bera á sér ökklana, svo ekki sé nú meira sagt. Sumstaðar í heiminum eru stúlkur skyldaðar til að mæta í skólann í pilsum sem ná þeim varla niður að hnjám. Sumstaðar ganga menn í skósíðum kyrtlum, sem koma fólki annarstaðar í heiminum fyrir sjónir eins og hjákátlegir kjólar. Sumstaðar þykir það ögrandi ef konur ganga með hálsbindi, eitt af aðalsmerkjum karlmennskunnar. Á Íslandi er ætlast til þess að maður mæti svartklæddur í jarðarför. Á Indlandi væri það vægast sagt óviðeigandi, en þar eru jarðarfarir hvítar eins og nýfallinn snjór.
Hugtakið ögrandi klæðaburður er afstætt og persónubundið mat, og þar af leiðandi óhæft viðmið. Karlmaður á það ekki skilið að vera barinn fyrir það eitt að klæðast Diesel-gallabuxum frekar en kona að vera nauðgað fyrir að vera í flegnum kjól. Klæðaburður réttlætir aldrei ofbeldi. Síðast en ekki síst tala staðreyndir sínu máli. Samkvæmt rannsóknum man meirihluti dæmdra nauðgara ekki hverju brotaþolinn klæddist þegar árásin átti sér stað.
Athugasemdir