Guðfinna Jóhanna Guðmundsóttir, borgarfulltrúi Framsóknar í Reykjvíkur, stígur fram á Facebook-síðu sinni í dag og greinir frá því þegar hún var misnotuð sem barn. Hún segist hafa glímt við áfallastreituröskun.
Fjöldi fólks hefur stigið fram undanfarið og sagt frá kynferðisofbeldi gegn sér. Tilgangurinn er að rjúfa þöggunina og skila um leið skömminni á réttan stað - til gerendanna. Guðfinna er þakklát þeim sem sagt hafa frá og rutt brautina.
„Ég er þakklát þeim sem hafa stigið fram og viðurkennt að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Það hefur hjálpað mörgum. Það hefur hjálpað mér. Mér hefur verið nauðgað og ég hef átt við áfallastreituröskun að stríða. Ég þekki ekki þann sem nauðgaði mér. Hann bjó í húsinu við hliðina á vinkonum mínum þegar ég var barn,“ skrifar Guðfinna.
„Ég er ekki mikið fyrir að opna mig en ég ætla núna að stíga langt út fyrir þægindarammann“
Hún segist ekki vera mikið fyrir að opna sig en kýs nú að stíga út fyrir þægindarammann. „Ég er ekki mikið fyrir að opna mig en ég ætla núna að stíga langt út fyrir þægindarammann og þakka því fólki sem hefur hjálpað mér og öðrum með hugrekki sínu og aflétt þeirri þöggun sem hefur hvíld yfir kynferðisofbeldi og afleiðingum þess,“ skrifar Guðfinna.
Guðfinna segir að það að skrifa stöðufærsluna sé eitt það erfiðasta sem hún hafi gert á ævinni. „Það er erfitt að stíga fram og segja frá einhverju sem maður hefur falið svo lengi en það er líka erfitt að halda því leyndu. Ég viðurkenni það fúslega að það að viðurkenna að hafa verið nauðgað og setja þessa færslu hér er eitt það erfiðasta sem ég hef gert en samt ekki jafn erfitt og að hafa lifað með afleiðingum þess í áratugi.
Mikil áhrif áfallastreituröskunar
„Áfallastreituröskun hefur mikil áhrif á daglegt líf þeirra sem eru haldnir henni og því er nauðsynlegt að opna umræðuna um hana. Kvíðinn, reiðin, óttinn, skömmin, martraðirnar, endurupplifunin, þráhyggjan, feluleikurinn við að brynja sig svo enginn viti hvað maður hefur gengið í gegnum, dagarnir sem maður hefur þurft að tala sjálfan sig í gegnum daginn til að komast af, félagsfælnin, vonleysið, vörnin, myrkfælnin og allt hitt sem fylgir er erfitt að lifa með og getur bitnað á mörgum enda fylgir slíkri vanlíðan oft hegðun sem enginn skilur en er í raun öskur á hjálp. Því er mikilvægt að opna umræðuna um afleiðingar kynferðisofbeldis og aðstoða þá sem hafa lent í kynferðisofbeldi,“ skrifar Guðfinna.
Skömmin færð á réttan stað
Druslugangan, sem snýst um að færa ábyrgð kynferðisbrota frá þolendum yfir á gerendum, verður farin klukkan 14 á morgun frá Hallgrímskirkju að Austurvelli. „Við viljum ekki einblína á klæðnað, hegðun eða fas þolenda sem afsökun fyrir kynferðisglæpi. Færum skömmina þar sem hún á heima!“ segir í kynningu aðstandenda göngunnar.
Athugasemdir