Mikill meirihluti kvenna er fylgjandi því að vændiskaup séu refsiverð en minna en helmingur karla. Þetta er á meðal niðurstaðna netkönnunar sem Félagsvísindastofnun framkvæmdi í apríl 2015. Tekið var 1176 manna lagskipt tilviljunarúrtak úr netpanel stofnunarinnar og var svarhlutfallið 60 prósent.
Fjallað var um réttartilfinningu landsmanna og afstöðu þeirra til ýmissa brota í erindi Helga Gunnlaugssonar, prófessors í félagsfræði, og Jónasar Orra Jónassonar félagsfræðings á Þjóðarspegli Háskóla Íslands á föstudag.
„Margir fræðimenn telja mikilvægt að refsilöggjöfin og dómar séu í samræmi við réttartilfinningu borgaranna. Dómar sem gangi í berhögg við siðferðis- og réttlætiskennd borgaranna geti smám saman grafið undan trausti á réttarríkinu. Mælingar á afstöðu borgaranna á afbrotum eru því brýnar til að varpa ljósi á hvernig þeir skynja og upplifa afbrot og vandamálin sem þau skapa,“ segir í útdrætti sem birtist á Skemmunni.
Niðurstöður könnunarinnar á viðhorfi fólks til refsinga fyrir vændiskaup leiða í ljós að konur eru mun hlynntari slíkum refsingum en karlar, íbúar af höfuðborgarsvæðinu eru hlynntari þeim en landsbyggðarfólk og háskólamenntaðir líklegri en fólk með minni menntun til að styðja refsingarnar. Hvað varðar sölu á vændi skiptast svarendur í tvær álíka stórar fylkingar, en mun færri vilja refsa fyrir sölu en kaup.
Athugasemdir