Á kjörtímabilinu sem nú er að ljúka lagði ríkisstjórnin fram fjölda umdeildra mála sem ekki náðu fram að ganga, einkum vegna þrýstings frá almenningi og stjórnarandstöðunni. Hér verður stiklað á stóru yfir þau helstu:
Sjúklingaskatturinn
Í fyrsta fjárlagafrumvarpi Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, var gert ráð fyrir að tekin væru upp legugjöld á spítölum og sjúklingar látnir greiða 1200 krónur á hvernig legudag. Með þessu stóð til að afla ríkissjóði um 300 milljóna tekna yfir fjárlagaárið en í sömu fjárlögum var lagt til að komugjöld heilsugæslustöðva yrðu hækkuð.
Bent var á að legugjöld á sjúkrahúsum myndu leggjast þyngst á öryrkja og ellilífeyrisþega. Ríkisstjórnin féll frá áformunum eftir að þau höfðu sætt harðri gagnrýni. Um svipað leyti féllst ríkisstjórnin loks á þá kröfu stjórnarandstöðunnar að atvinnulausir fengju desemberuppbót árið 2013 eins og tíðkast hafði árin á undan.
Náttúrupassinn
Í lok árs 2014 kynnti Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, frumvarp til laga um svokallaðan náttúrupassa þar sem lagt var til að allir landsmenn og ferðamenn, 18 ára og eldri, yrðu látnir greiða 1.500 krónur fyrir skírteini til að mega fara inn á ferðamannastaði í eigu og umsjón ríkis og sveitarfélaga. Málið vakti strax mikla og neikvæða athygli, einkum eftir að greint var frá því að ef frumvarpið yrði að lögum þyrftu Íslendingar að kaupa náttúrupassa til að mega ganga um þjóðgarðinn á Þingvöllum sem hefur verið friðlýstur helgistaður allra Íslendinga frá árinu 1930. Ragnheiður Elín gaf loks hugmyndir um náttúrupassann upp á bátinn eftirmikinn þrýsting.
LÍN-frumvarpið
Með frumvarpi Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, til nýrra heildarlaga um námslán og námsstyrki var lagt til að tekjutenging afborgana af námslánum yrði afnumin, vextir allt að þrefaldaðir og námsstyrkur veittur öllum nemendum, óháð efnahag og þörf. Háskóli Íslands og fjöldi umsagnaraðila varaði við því að frumvarpið yrði óbreytt að lögum. Færðu þingmenn stjórnarandstöðunnar rök fyrir því að með gildistöku frumvarpsins yrði grafið undan lífskjörum stúdenta – einkum doktorsnema, einstæðra foreldra og tekjulágra – en jafnframt stuðlað að ójöfnuði og lægra menntunarstigi í landinu. Stúdentaráð Háskóla Íslands og fleiri hreyfingar hvöttu til þess að frumvarpið yrði keyrt í gegnum þingið á síðustu dögum þess. Sú varð ekki raunin vegna eindreginnar andstöðu stjórnarandstöðunnar. Lýsti Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, frumvarpinu sem „Thatcherisma“ og „kristaltæru dæmi um ótrúlega vont pólitískt hjartalag“.
Stórauknar virkjanaframkvæmdir
Stöðugur ágreiningur hefur ríkt um málefni rammaáætlunar og flokkun virkjanakosta á yfirstandandi kjörtímabili milli þingmanna stjórnarandstöðunnar og meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis. Þar hefur Jón Gunnarsson, formaður nefndarinnar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, verið í fararbroddi þeirra sem hafa viljað ganga lengra og gefa grænt ljós á miklu fleiri virkjanaframkvæmdir en verkefnisstjórn rammaáætlunar hefur talið óhætt að ráðast í. Stjórnarandstaðan hefur brugðist harkalega við ítrekuðum tilraunum stjórnarliða til að fara út fyrir ramma verkefnastjórnar rammaáætlunar. Fyrir vikið hafa Jón Gunnarsson og meirihluti atvinnuveganefndar ekki haft erindi sem erfiði.
Makrílfrumvarpið
Uppi varð fótur og fit þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og núverandi forsætisráðherra, lagði fram frumvarp um að aflaheimildum í makríl, með söluverðmæti upp á rúma 70 milljarða, yrði úthlutað stórum útgerðarfélögum til sex ára á grundvelli veiðireynslu. Um leið var lagt til að ekki yrði hægt að breyta úthlutuninni nema með sex ára fyrirvara og þannig hendur næstu ríkisstjórna bundnar. Stundin greindi frá því í forsíðuúttekt að ef frumvarpið yrði að lögum fengju tíu eigendur útgerða 35 milljarða makrílkvíta úthlutaðan. Frumvarpið féll vægast sagt í grýttan jarðveg en 51 þúsund manns undir áskorun til forseta Íslands um að vísa því í þjóðaratkvæðagreiðslu. Á endanum dagaði frumvarpið uppi í atvinnuveganefnd.
Athugasemdir