Lögreglumenn, sem voru með viðbúnað nærri heimili Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, slökktu í einnnota grilli mótmælenda með slökkvitæki í gær. Á meðfylgjandi myndbandi má sjá lögreglu beita slökkvitæki á grill mótmælenda og þá mótmæla aðferð lögreglu.
„Ekkert svona,“ sagði lögreglumaðurinn, áður en hann sprautaði á grillið. „Þetta hefur skapað miklu meiri skaða en einn eldur nokkurn tímann,“ mótmælti einn skipuleggjenda mótmælanna. „Hérna. Þið eruð að óhlýðnast fyrirmælum. Það er hægt að kæra ykkur fyrir það,“ svarar lögreglumaðurinn.
Fram hefur komið í fjölmiðlum að lögreglan hafi verið kölluð að heimili fjármálaráðherra vegna umdeildra mótmæla sem boðuð höfðu verið við heimili Bjarna. Lögreglan hafði hins vegar ekki verið kölluð út að frumkvæði Bjarna, heldur viðhafði hún viðbúnað eins og hefðbundið er við boðuð mótmæli.
Mótmælendahópurinn sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem umfjöllun fjölmiðla var gagnrýnd, en sagt hafði verið frá því að lögreglan hefði verið kölluð út vegna mótmælanna.
„Þá voru bæði RÚV og Vísir með myndavélar á staðnum frá byrjun meðmælanna og lýsa meðmælendur yfir undrun sinni á því að fjölmiðlarnir hafi ákveðið að birta ekki neitt af því myndefni sem safnaðist. Myndirnar hefðu sýnt fram á þá rólyndisstemningu sem uppi var og þann fáránleika sem felst í því að láta sem lögreglu hafi þurft að kalla til sérstaklega vegna atburðarins,“ segir í yfirlýsingunni.
Athugasemdir