Þann 8. janúar síðastliðinn greindi Vísir.is frá því að meirihluti fíkniefnadeildar hefði í sameiningu gert alvarlegar athugasemdir við störf samstarfsmanns síns, lögreglufulltrúa sem sagður var hafa átt í óeðlilegum samskiptum við aðila úr fíkniefnaheiminum en hefur nú verið hreinsaður af þeim ásökunum.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar hefur Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, ítrekað vísað til listans í umræðum um málefni fíkniefnadeildar. „Hún var alltaf að veifa þessu, að níu starfsmenn – meirihluti fíkniefnadeildar – hefðu skilað til sín undirritaðri vantrauststillögu,“ segir einn af heimildarmönnum blaðsins. Þremur öðrum viðmælendum Stundarinnar innan úr lögreglu ber einnig saman um þetta.
Fyrr í sumar sendi Kristján B. Thorlacius, lögmaður lögreglufulltrúans, Sigríði Björk tölvupóst og fór fram á að listinn yrði afhentur skjólstæðingi sínum. Benti lögmaðurinn á að ítrekað hefði verið vísað til listans við meðferð málsins og til þess að á listanum væri að finna nöfn og undirskriftir lögreglumanna sem kvartað hefðu til lögreglustjóra og óskað eftir að fram færi rannsókn á meintum brotum lögreglufulltrúans.
Lögmaðurinn fékk þau svör frá Sigríði um miðjan júlímánuð að listinn væri ekki til. Þetta hefur valdið nokkrum titringi innan embættis lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst í ljósi þess að fólk í yfirstjórn lögreglunnar stóð í þeirri trú að listinn væri raunverulegur. Mun Sigríður hins vegar hafa vísað til þess að það ríkti trúnaður milli hennar og þeirra sem skrifað hefðu undir.
Ítarlega var fjallað um málefni gömlu fíkniefnadeildarinnar í Stundinni á dögunum. Greint var frá því að lögreglumenn sem höfðu lögreglufulltrúa í fíkniefnadeild fyrir rangri sök hefðu verið hækkaðir í tign, fengið óauglýsta stöðu og hlotið annars konar framgang í starfi. Þeir sem stóðu með lögreglufulltrúanum hefðu hins vegar verið settir út í horn. Í skýrslutökum hjá héraðssaksóknara lýstu lögreglumenn ólgu, ósætti og flokkadráttum og haft var á orði að „smákóngastríð“ geisaði innan fíkniefnadeildar.
Athugasemdir