Gústaf Níelsson, sem gerður var afturreka sem varamaður í mannréttindaráði Reykjavíkurborgar, dró upp þá samlíkingu í þættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun, að múslímar á Íslandi væru í svipaðri stöðu og ofbeldismenn á heimilum. Íslenskir stjórnmálamenn væru í hlutverki hins kúgaða og tipluðu á tánum í kringum ofbeldisfólkið.
„Það sem mér finnst sérkennilegast er að stjórnmálamenn allra flokka tipla á tánum í kringum þetta fólk, svona af ótta við viðbrögðin. Stjórnmálamennirnir eru í reyndinni eins og kona í ofbeldissambandi sem tiplar á tánum í kringum ofbeldismanninn af ótta við hin óvæntu viðbrögð hans. Við þetta er ekkert búandi,“ sagði Gústaf í útvarpsþættinum Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hann sat einn fyrir svörum hlustenda.
Um tíma hitnaði í kolunum þegar einn hlustenda sagði vera samsvörun milli skoðan Gústafs og norska fjöldamorðingjans Anders Behring Breivik. Gústaf varðist og sagðist ekki deila sjónarmiðum með „þessum ógæfumanni“.
Gústaf var einnig í umræðuþætti á Stöð 2 í gærkvöld þar sem hann reifaði skoðanir sínar á múslímum sem hann segir að streymi til Vestur-Evrópu vegna þess að þeirra eigin lönd séu í upplausn.
Athugasemdir