Ólafur Hr. Sigurðsson, starfsmaður í kerskála Alcoa-Fjarðaráls á Reyðarfirði, var rekinn úr starfi sínum í álverinu á Reyðarfirði eftir að hafa glatt fyrrverandi vaktfélaga sína neð því að mæta í gervi jólasveins með gjafir og skemmtiatriði fyrir síðustu jól. Hann segir frá þessu í aðsendri grein í Austurfrétt.
,,Til að gleðja nú mína gömlu vakt ákvað ég í samráði við leiðtoga, sem tekið hafði við af mér, að koma í heimsókn sem jólasveinn enda dregið nærri jólum. Hafði ég gert þetta árið áður og allir haft af því nokkurt gaman. Nú ég mætti á vaktina sem jólasveinn og færði vaktinni nammi og gos. Jafnframt var ég með svona smá jólasveinauppistand,“ skrifar Ólafur sem eitt sinn starfaði sem bæjarstjóri á Seyðisfirði.
Einhverjir af toppunum hjá Fjarðaáli þóttust greina uppreisnartón í jólasveininum
Hann segir að einn félaganna hefði tekið heimsóknina upp á símann sinn og sett á netið. Þá hafi allt farið af stað.
,,Nokkrum dögum síðar var ég svo kallaður niður í álver þar sem mér var tilkynnt að inn fyrir dyr þessa álvers kæmi ég ekki aftur. Einhverjir af toppunum hjá Fjarðaáli þóttust greina uppreisnartón í jólasveininum og að hann hefði gert grín að fyrirtækinu. Slíkt væri ekki líðandi.“
Ólafur óskaði í framhaldinu eftir fundi með nýjum forstjóra Alcoa sem tók honum, að sögn, vel.
,,Nokkrum vikum síðar kom svo niðurstaðan. Með fundinum hafði skilningur hans á mínum málið aukist en því miður yrði jólasveinaatriðið ekki fyrirgefið. Ekki væri þó alveg útilokað að í framtíðinni yrði kannski hægt að ráða mig aftur,“ skrifar Ólafur og telur ólíklegt að hann fari aftur til Alcoa enda að verða 61 árs og styttist í eftirlaunaaldurinn.
Hann lýsir því í greininni að hafa átt flekklausan feril hjá Alcoa þar sem hann hafði starfað í fjögur ár. Að vera rekinn úr vinnu var því ekki inni í myndinni.
,,Aldrei hafði mér dottið í hug að ég ætti eftir að verða rekinn úr vinnu. Hef ætíð lagt mig fram við alla vinnu sem ég hef unnið um dagana og oftast unnið talsvert umfram það sem ætlast var til af mér. Fáa daga hef ég legið heima veikur og aldrei hefur mér dottið í hug að tilkynna mig veikan þegar ég hef ekki verið það. Hef ætíð lagt mig fram um að koma vel fram við vinnufélaga og vinnuveitendur, sama hvort mér hafa þótt þeir skemmtilegir eða leiðinlegir,“ skrifar hann.
Ólafur telur ljóst að hefði hann orðið uppvís að óreglu væri staða hans betri.
,,Samkvæmt reglum Alcoa hefði ég kannski átt að fá skriflega áminningu og svona föðurlegt tiltal en það hefði samt verið mjög strangt að mínu mati. Hefði ég mætt fullur til vinnu hefði ég verið sendur heim og boðið að fara í afvötnun,“ skrifar hann.
Athugasemdir