Landspítali - háskólasjúkrahús hefur um árabil leigt út íbúðarhúsnæði í langtímaleigu til starfsmanna sinna á niðursettu verði í íbúðum við Vífilsstaðaspítala í Garðabæ sem eru í eigu ríkisins. Nú í apríl var hins vegar ákveðið að segja öllum leigusamningunum upp og verða íbúðirnar ekki leigðar út til starfsfólks í langtímaleigu, samkvæmt svörum frá Ingólfi Þórissyni, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs spítalans. Samtals er um að ræða 12 íbúðir við Vífilsstaðaspítala.
Landspítalinn hefur einnig haft ráðstöfunarrétt yfir 9 íbúðum við geðsjúkrahúsið Klepp í austurbæ Reykjavíkur en þær íbúðir hafa verið leigðar út í skammtímaleigu til starfsmanna spítalans. Breytingarnar á leigufyrirkomulaginu hjá spítalanum munu ekki hafa áhrif á þessar íbúðir þar sem eingöngu hefur verið um að ræða skammtímaleigu.
73 fermetra íbúð á 62 þúsund
Leigan á húsnæðinu hefur síðastliðin ár numið um og innan við um það bil helmingi af markaðsverði sambærilegra íbúða. Sem dæmi má nefna að samkvæmt leigusamningi sem gerður var við einn starfsmann Landspítalans árið 2011 leigði hann 73 fermetra íbúð við Vífilstaðaspítala á tæplega 62 þúsund krónur á mánuði. Leigugjald annarra íbúða í eigu ríkisins sem spítalinn hefur til afnota við Vífilstaðaspítala hefur verið sambærilegt.
Athugasemdir