Slétt 57 prósent Íslendinga eru hlynnt því að flokkar gefi það upp fyrir kosningar með hverjum þeir hafa mestan áhuga á að vinna með ef þeir komast í ríkisstjórn. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu um samstarfmöguleika stjórnmálaflokka. Kjósendur Samfylkingar, Pírata og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs eru einna helst hlynntir þessari hugmynd á meðan kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks eru einna helst andvígir henni. „Þetta er afgerandi niðurstaða en kemur kannski ekki á óvart,“ segir meðal annars í skýrslu Maskínu.
Þannig segjast 89,7 prósent kjósenda Samfylkingar hlynnt því að flokkar gefi upp fyrir kosningar með hverjum þeir hafa mestan áhuga á að vinna með ef þeir komast í ríkisstjórn, 82,6 prósent kjósenda Pírata, 79 prósent kjósenda Vinstri grænna og 65,4 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar. Hins vegar vilja einungis 24 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks að flokkar gefi um ákjósanlega samstarfsflokka fyrir kosningar og aðeins 17,6 prósent kjósenda Framsóknarflokksins. Rúmlega helmingur kjósenda Viðreisnar, eða 54,1 prósent, segist hlynntur því að flokkar gefi það upp fyrir kosningar með hverjum þeir vilja vinna.
Kjósendur í Norðvesturkjördæmi og Suðurkjördæmi eru síður hlynntir því að flokkar gefi upp samstarfsmöguleika fyrir kosningar en kjósendur í öðrum kjördæmum.
Að jafnaði fjölgar þeim með meiri menntun sem eru hlynntir því að flokkar gefi það upp fyrir kosningar með hverjum þeir hafa mestan áhuga á að vinna með ef þeir komast í ríkisstjórn.
Athugasemdir