Háskólinn Karolinska Institutet ásakar Landspítala Íslands um að hafa haldið upplýsingum um heilsufarsástand fyrsta plastbarkaþegans Andemariams Beyene frá háskólanum þegar sjúkrahúsið veitti upplýsingar um líðan hans til háskólans eftir að hann fékk græddan í sig plastbarka. Þetta kemur fram í máli Jan Carlstedt Duke, sem svarar fyrir Karolinska Institutet og rannsóknina á Paolo Macchiarini, eftir að rektor skólans Anders Hamsten sagði af sér á laugardaginn. Jan Carlstedt segir þetta í viðtali við sænsku fréttaveituna TT sem birt var í sænskum fjölmiðlum um helgina. Ásakanir Karolinska-háskólans eru hins vegar frekar óljósar.
Orðrétt segir Jan Carlstedt í viðtalinu: „Við höfum greint þetta frekar og það hafa komið fram meiri og meiri upplýsingar sem sýna fram á að sú mynd sem við fengum í ummælum frá íslenska sjúkrahúsinu er önnur en sú mynd sem við höfum í dag. Nánar tiltekið á þetta við um atburðarásina eftir aðgerðina, það er að segja tímabilið frá aðgerðinni og þar til greinin í Lancet var birt.“
Jan Carlstedt útskýrir hins vegar ekki hvað hann á nákvæmlega með við með þessum orðum; hvaða gögn eða upplýsingar frá Íslandi er átt við þegar hann segir að upplýsingarnar sem bárust frá Íslandi hafi verið misvísandi.
Athugasemdir