Íslenskur lögfræðingur, Gísli Björnsson, hefur unnið fyrir stjórnvöld í Marokkó á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í baráttu þeirra við að tryggja sér yfirráð yfir landsvæðinu Vestur-Sahara sem staðsett er sunnan við Marokkó í Norður-Afríku. Þetta kemur fram í bréfi sem sendiráð Marokkó í Osló sendi til utanríkisráðuneytis landsins í höfuðborginni Rabat í september í fyrra þar sem greint var frá þátttöku Gísla á fundi hjá Sameinuðu þjóðunum fyrir hönd landsins og staðfestir voru fyrir hann flugmiðar. Bréfinu, sem er á frönsku, var lekið á netið í síðasta mánuði en með því fylgdi ræða sem Gísli hélt um Vestur-Sahara á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York í október í fyrra.
„Þannig að ég var bara sendur til New York til að tala þeirra máli.“
Í samtali við Stundina segir Gísli að hann hafi fengið verkefnið eftir að hafa unnið fyrir sendiherra Marokkó í Osló, Yassine Dalal, við að aðstoða marokkóska ríkisborgara á Íslandi. Í kjölfarið hafi hann verið beðinn að fara til New York fyrir hönd ríkisstjórnar Marokkó til að tala máli landsins í deilunni um Vestur-Sahara á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. „Ég hef einfaldlega verið að vinna lítillega fyrir sendiherra Marokkó í Osló út af málefnum Marokkóbúa sem búa á Íslandi. Þannig að ég var bara sendur til New York til að tala þeirra máli.“
Athugasemdir