Hátt í 300 manns hafa skorað á íslensk stjórnvöld að beita sér í þágu íslenskra fjölskyldna sem telja sig órétti beittar af barnaverndaryfirvöldum í Noregi. Stofnuninni sem sér um slík mál þar í landi hefur verið líkt við ættleiðingarkerfi sem var við lýði á tímum nasimans. Samkvæmt heimildum Stundarinnar hafa fjölmörg íslensk börn verið tekin af foreldrum sínum og þau dæmd til vistunar hjá norskum fósturfjölskyldum til 18 ára aldurs.
Baráttan við norsku barnaverndina er martröðinni líkust, eins og Erna Ingólfsdóttir hefur komist að, en bróðir hennar missti bæði börnin sín einn örlagaríkan dag í septembermánuði þegar tveir lögreglumenn fluttu þau með valdi úr leikskóla þeirra og komu þeim fyrir í mörg hundruð kílómetra fjarlægð frá heimili þeirra. Börnin fengu ekki að vera systkini áfram í þeim skilningi að þeim var stíað í sundur og komið fyrir hjá sitthvorri fjölskyldunni.
„Þetta er sorgarsaga en því miður ekki sú eina, hundruð barna í Noregi eru tekin af foreldrum sínum fyrir minnstu sakir.“
„Þetta er búið að vera eins og martröð og það sér ekki enn fyrir endann á henni,“ segir Erna sem samþykkti að ræða við Stundina um málefni bróður síns og með hans leyfi fengum við að birta ljósmynd af börnunum sem fjölskyldan hefur nú misst í hendur ókunnugra í Noregi. Stúlkan var aðeins fimm ára þegar hún var tekin af lögreglunni þennan dag í september og bróðir hennar fjögurra ára.
Biðla til íslenskra stjórnvalda
„Þessi bolti hjá barnavernd í Noregi byrjaði að rúlla þegar bróðir minn og þáverandi eiginkona hans, móðir barnanna, óskuðu eftir hjálp hjá norskum yfirvöldum. Móðir þeirra fékk svo slæmt fæðingarþunglyndi og þau ákváðu að óska eftir hjálp því þau höfðu lítið sem ekkert bakland í Noregi. Það voru eiginlega fyrstu mistökin. Ótrúlegt að segja það en það borgar sig ekki að biðja um hjálp þarna í Noregi með börnin. Í kjölfar þess að þau biðja um aðstoð þá er mál þeirra komið inn á borð barnaverndar sem endar með því að starfsmenn hennar koma reglulega í heimsókn sem í raun jók álagið á fjölskylduna og hjálpaði þeim ekki neitt. Fæðingarþunglyndið og afskipti barnaverndarinnar var of mikið fyrir samband þeirra hjóna og þau skildu.
„Að trúa norsku barnaverndinni voru sennilega mistök númer tvö.“
Sökum þess hve fæðingarþunglyndið hafði mikil áhrif á eiginkonu hans og í ljósi þess að hann var stoð og stytta fjölskyldunnar þá fékk hann fulla forsjá yfir börnunum. Sú staðreynd fór illa í móður barnanna sem reyndi hvað hún gat að koma illu orði á bróður minn sem varð til þess að barnaverndin fór að blanda sér meir og meir inn í líf barnanna,“ segir Erna sem ásamt systur sinni hefur biðlað til íslenskra stjórnvalda að skipta sér af barnaverndarmálum í Noregi.
„Afskiptin og hótanirnar frá barnaverndinni urðu til þess að bróðir minn flýr með börnin til Íslands árið 2012. Hann var hérna í sex mánuði og í raun þorði ekki aftur til Noregs með börnin því þá höfðu starfsmenn norsku barnaverndarinnar hótað því að taka þau af honum. Hann skildi allt sem hann átti eftir í Noregi og flaug heim. Á þessum sex mánuðum var hann í stöðugu sambandi við norsku barnaverndina og vildi eftir fremsta megni leysa þessi mál. Hann elskar börn sín meira en allt og sýndi það með því að yfirgefa húsið sem hann átti, vinnuna sína og alla vini í Noregi til þess að bjarga börnunum. Eftir sex mánuði fær hann þau skilaboð frá norsku barnaverndinni um að ákveðið hafi verið að láta málið niður falla og að ekkert meira yrði aðhafst,“ segir Erna og bætir við að bróðir hennar hafi trúað norsku barnaverndinni og haldið aftur til Noregs þar sem hann hafði búið í mörg ár.
Segir barnaverndaryfirvöld ljúga
„Að trúa norsku barnaverndinni voru sennilega mistök númer tvö. Það hefur sýnt sig og sannað að það er ekki hægt að treysta þeim því norska barnaverndin lýgur og lýgur til þess að ná sínu fram. En bróðir minn treysti því sem við hann var sagt þannig að hann fór með börnin aftur út til Noregs en ákvað, í ljósi þess að barnaverndin í bænum hans veitti honum enga aðstoð, að flytja í annan bæ í Noregi og reyna að byrja upp á nýtt. Það gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig því barnaverndin elti hann þangað.“
„Ég og systir mín höfum flogið til Noregs til að aðstoða bróður okkar og reynt að fá þessu breytt.“
Faðir barnanna var sakaður um að hafa lagt hendur á dóttur sína en Erna telur að það hafi upprunalega komið frá móður þeirra sem vildi fá þau með sér til Svíþjóðar í kjölfar skilnaðarins. Norska barnaverndin treysti þó ekki móður þeirra fyrir forsjánni vegna persónulegra erfiðleika hennar en trúði ásökununum án þess þó að bera það upp við föður barnanna. Það var síðan á leikskólanum sem dóttir mannsins á að hafa sagt að faðir hennar hafi lamið sig.
„Hann var aldrei spurður hvort það væri fótur fyrir þessu eða hvernig stelpan væri dagsdaglega og hvort allt væri rétt sem hún segði. Börnin voru bara tekin án frekari rannsókna, farið með þau í skoðun í Barnahús en eðlilega fundust engir áverkar, bróðir okkar misþyrmir ekki börnunum sínum. Síðan þá hafa verið 3 réttarhöld. Ég og systir mín höfum flogið til Noregs til að aðstoða bróður okkar og reynt að fá þessu breytt. Við höfum reynt að láta vita að það sem stúlkan segir sé ekki endilega réttur sannleikur. Við vitum það af eigin reynslu,“ segir Erna og bætir við að ásakanirnar séu til komnar vegna þess að stúlkan er greind með slæma röskun sem lýsir sér meðal annars með mikilli snertifælni.
Íslenska barnaverndin gaf grænt ljós
„Til þess að skýra þetta mál enn betur, hvers vegna við vitum að bróðir okkar er saklaus, er að stúlkan er með slæma röskun. Röskunin lýsir sér þannig að hún er ofurviðkvæm fyrir öllu áreiti. Hún er snertifælin og verður oft hin minnsta snerting að því að fólk sé að lemja hana, klípa eða meiða. Þessi röskun kemur fram á ýmsan hátt, hún er t.d. viðkvæm fyrir hávaða, hún getur ekki gengið í hvaða fötum sem er því sum efni þolir hún ekki. Hún er mjög hársár og vill ekki láta greiða sér. Hún á líka erfitt með að borða, áferðin á matnum í munninum á henni verður til þess að hún kúgast. Það eru sem sagt flest áreiti sem setja hana úr lagi,“ segir Erna en þegar bróðir hennar flúði til Íslands árið 2012 með börnin þá gistu þau til skiptis hjá systrum hans sem búa hér á landi.
„Í dag fær hann að sjá börnin sín tvisvar sinnum á ári, tvo tíma í senn með vakt yfir sér.“
„Þegar fjölskyldan var hjá okkur á Íslandi þá sagði hún oft að við höfðum lamið hana, klipið hana og ég veit ekki hvað og hvað. Hún hljóp á milli okkar og „klagaði“ hina og þessa að þau hefðu verið að meiða sig. Sömu sögu segir systir mín og fjölskylda hennar,“ segir Erna sem hefur ásamt systur sinni staðið í ströngu við norsk yfirvöld en hún og systir hennar buðust meðal annars til þess að taka börnin í sína umsjá. Starfsmenn barnaverndarinnar á Íslandi tóku út húsnæði þeirra hjóna í Vestmannaeyjum og gáfu þeim meðmæli en norska barnaverndin mun ekki hafa hlustað.
Málið hefur þrisvar sinnum farið fyrir rétt í Noregi, tvisvar fyrir Fylkisnefnd og einu sinni fyrir Þingrétt.
Mega ekki tala við pabba á íslensku
„Barnaverndin í Noregi vinnur 99% mála sem fara fyrir Fylkisnefndina þar og því vorum við að binda vonir okkar við það að þetta myndi breytast fyrir Þingrétti. Þá sérstaklega í ljósi þess að fyrir lá vitnisburður hinnar nýju stjúpmóður dóttur bróður míns en hún greindi grátandi frá því að stúlkan hefði sagt að þau hjónin hefðu lamið sig þannig að elsku stúlkunni okkar var ekki alltaf sjálfrátt. En þrátt fyrir þann vitnisburð þá var föður barnanna ekki trúað. Málið var þannig dæmt án nokkurra sannanna,“ segir Erna sem hvetur íslensk stjórnvöld til þess að sýna þessu máli áhuga og fjölda annarra þar sem íslensk börn eiga í hlut.
„Í dag fær hann að sjá börnin sín tvisvar sinnum á ári, tvo tíma í senn með vakt yfir sér. Börnin eru á sitthvoru fósturheimilinu og systkinin hittast mjög sjaldan. Hann má ekki hringja í þau eða þau í hann, ekki á afmælum, jólum eða í annan tíma. Engin í fjölskyldunni fær að sjá börnin, ekki einu sinni eldri systkini þeirra sem eru flutt að heiman. Ég hef mátt hringja í drenginn en í hvert sinn er eitthvað vesen, við höfum reynt að hringja til stúlkunnar en engin svarar. Við getum sent bréf og gjafir en þetta eru einu samskipin sem við höfum haft við börnin í næstum 3 ár,“ segir Erna en fjölskyldan neitar að gefast upp.
Börnunum er bannað að eiga samskipti við föður sinn á íslensku þegar hann fær að hitta þau þessar örfáu mínútur svo starfsmenn barnaverndarinnar viti hvað þau tala um frá A til Ö. Stúlkan hefur þó nokkrum sinnum hvíslað til föður síns á íslensku á meðan á heimsókninni stendur og vilja þau bæði „koma heim.“ Heimsóknirnar eru erfiðar og taka bæði á börnin og föður þeirra
Gagnrýnd um heim allann
„Þetta er sorgarsaga en því miður ekki sú eina, hundruð barna í Noregi eru tekin af foreldrum sínum fyrir minnstu sakir, sakir sem við hér á Íslandi myndum í mörgum tilfellum leysa í samvinnu við foreldra. Lausnin hjá barnaverndarnefnd Noregs er yfirleitt sú að fjarlægja börn af heimilum sínum og koma þeim fyrir á fósturheimilum. Mörg lönd hafa staðið í deilum við Noreg út af barnaverndarmálum en Noregur hefur ítrekað hunsað dóma frá Mannréttindadómstól Evrópu. Noregur er að brjóta svo margt, alþjóðlegar samþykktir, fjölskyldur sundrast og mikil sorg og erfiðleikar fylgja svona málum og þess vegna erum við að biðja alla landsmenn um hjálp. Við vitum að þrýstingur frá fjöldanum er alltaf sterkastur ásamt sannleikanum. Áætlunin er að safna undirskriftum og afhenda síðan réttum aðilum, með vonina að leiðarljósi,“ segir Erna sem hvetur alla til þess að fara inn á síðuna „Börnin Heim“ og skrifa undir. Þá er einnig haldið utan um málið og baráttuna á Facebook-síðu.
Norska barnaverndin hefur verið gagnrýnd víða um heim en ekki er langt síðan efnt var til mótmæla í 63 borgum, meðal annars í Reykjavík, en þau fóru fram fyrir utan norska sendiráðið hér á Íslandi og stóð Erna og fjölskylda að mótmælunum. Við það tilefni afhenti Erna sendiherra Noregs mótmælabréf og persónulegt bréf sem fjallaði um málefni bróður þeirra. Sendiherrann lofaði að koma bréfinu til skila til réttra aðila í Noregi en samkvæmt Ernu hafa þau ekkert heyrt af því frá því þau afhentu það þann 1. maí síðastliðinn.
Meðal þeirra sem hafa gagnrýnt norsku barnaverndina er forseti Tékklands en hann líkti henni við ættleiðingarkerfið sem var við lýði á tímum nasismans og gekk undir nafninu Lebensborn. Þessi ummæli lét forsetinn falla þegar tékkneskir piltar voru teknir frá foreldrum sínum í Noregi árið 2011. VG og Aftenposten fjölluðu um málið og segir í fréttum þeirra að drengirnir hafi verið teknir af foreldrunum þegar annar drengjanna sagði föður sinn hafa snert sig fyrir innan náttföt sín. Engin ákæra var gefin út á hendur föður piltsins og vakti málið mikla reiði í Tékklandi.
Stundin mun á næstu vikum fjalla ítarlega um barnaverndina í Noregi og meðal annars ræða við foreldra, afa og ömmur sem flúið hafa með börn sín og barnabörn frá Noregi til Íslands. Næsta tölublað Stundarinnar kemur út 28. júlí.
Athugasemdir