Embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu braut meðalhófsreglu stjórnsýslulaga þegar lögreglumanni úr fíkniefnadeild var vikið frá störfum í janúar síðastliðinn. Þetta kemur fram í úrskurði innanríkisráðuneytisins sem telur ákvörðun lögreglustjóra ólögmæta og hefur fellt hana úr gildi.
Er þetta í fjórða skiptið á undanförnum tveimur árum sem lögreglustjóraembætti, sem Sigríður Björk Guðjónsdóttir gegnir eða gegndi, er ávítt af eftirlitsaðila, æðra stjórnvaldi eða dómstól fyrir lögbrot.
Hreinsaður af ásökunum um lögbrot
RÚV fjallaði upphaflega um úrskurð innanríkisráðuneytisins og greindi frá því að samkvæmt honum hefði Sigríður Björk lögreglustjóri byggt ákvörðun sína um brottvikningu lögreglumannsins á orðrómi en ekki gögnum. Forsaga málsins er sú að lögreglumaðurinn var sakaður um óeðlileg samskipti við brotamenn sem verið höfðu til rannsóknar hjá fíkniefnadeild. Sigríður Björk vék honum frá störfum og setti á hálf laun eftir að embætti héraðssaksóknara hóf rannsókn á málinu. Niðurstaða héraðssaksóknara var sú að ekkert benti til þess að maðurinn hefði átt í óeðlileg samskiptum brotamenn eða framið lögbrot af neinu tagi. Innanríkisráðuneytið telur að ákvörðun lögreglustjórans um brottvikningu mannsins hafi byggt á frásögnum og orðrómi frekar en gögnum og að meðalhófssjónarmiða stjórnsýsluréttar hafi ekki verið gætt.
Lögregla ósammála ráðuneytinu
Í fréttatilkynningu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi út nú á fimmta tímanum er því hafnað að ákvörðun um að veita lögreglumanni lausn frá starfi um stundarsakir hafi byggt á orðrómi. Fullyrðir lögreglan að ákvörðunin hafi grundvallast á þeirri ákvörðun ríkissaksóknara að hafin yrði formleg rannsókn á hendur honum.
„Upphaf máls var að formlegt erindi frá ríkissaksóknara barst þann 11. janúar s.l. þar sem ríkissaksóknari tilkynnti að hann hefði mælt fyrir um að hefja sakamálarannsókn á hendur lögreglumanni hjá embættinu. Í tilkynningunni kemur fram að sakarefni málsins séu alvarleg með heimfærslu til 128. og 136. gr. almennra hegningarlaga. Lögum samkvæmt ber þá embættinu að taka afstöðu til þess hvort lög stæðu til þess að veita lögreglumanninum lausn um stundarsakir eða á meðan rannsókn fer fram,“ segir í tilkynningunni frá lögreglu.
„Í framhaldinu var tekið til skoðunar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samræmi við ákvæði starfsmannalaga, hvort veita bæri lögreglumanninum lausn frá embætti um stundarsakir, eins og kveðið er á um. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði þegar ákvörðun var tekin hvorki stöðu né forsendu til að endurmeta þann rökstudda grun sem ríkissaksóknari grundvallaði ákvörðun sína á. Það var niðurstaða embættisins að þær athafnir sem lögreglumaðurinn var grunaður um væru ósamrýmanlegar því embætti sem hann gegndi og að háttsemi sem grunur lék á um, myndi hafa í för með sér sviptingu starfsréttinda yrði hann sakfelldur. Með vísan til þessa var lögreglumanninum veitt lausn um stundarsakir.“
Brot gegn persónuverndarlögum
Í fyrra komu upp þrjú mál þar sem lögreglustjóraembætti sem Sigríður Björk gegnir eða gegndi var talið hafa farið á svig við lög.
Athugasemdir