Vopnaðir sérsveitarmenn voru viðstaddir þegar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leiddi menn úr hópi sem réðst á Arnar Jónsson Aspar, með þeim afleiðingum að hann lést í gærkvöldi, fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjavíkur. Héraðsdómur féllst á gæsluvarðhald yfir fimm karlmönnum og einni konu. Meðal hinna handteknu eru Jón Trausti Lúthersson, Sveinn Gestur Tryggvason, Marcin Wieslaw Nabakowski, Rafal Marek Nabakowski og Ásta Hrönn Guðmundsdóttir.
Arnar var heima hjá sér að Æsustöðum í Mosfellsdal þegar fólkið bankaði upp á. Kona Arnars var á heimilinu, sem og tíu daga gamalt stúlkubarn hans.
Samkvæmt umfjöllun Mbl.is reyndi kona Arnars, Heiðdís Helga Aðalsteinsdóttir, að biðla til árásarmanna um að hætta, þar sem hann ætti tíu daga gamla dóttur og fjölskyldu. Afi Heiðdísar var í mat hjá þeim þegar hópinn bar að. Hann horfði upp á árásina og fékk hjartaáfall. Hann liggur nú á hjartadeild Landspítalans.
Fram hefur komið að á meðal hinna handteknu séu Jón Trausti Lúthersson, forsprakki bifhjólasamtakanna Outlaws, og bræðurnir Marcin Wieslaw Nabakowski og Rafal Marek Nabakowski, sem hlutu dóm í febrúar fyrir skotárás í Breiðholti. Þeir áfrýjuðu og hafa enn ekki hafið afplánun.
Fólkið, fimm karlmenn og ein kona, verða leidd eitt af öðru fyrir dómara.
Athugasemdir