Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, hyggst ekki bjóða sig fram í komandi Alþingiskosningum. Þetta tilkynnti hann í myndbandi sem hann sendi frá sér í gær. Hins vegar ætlar hann að bjóða sig fram til Alþingis fyrir Pírata árið 2020, eða fyrr ef stjórnarskrármálið krefst þess, eins og hann orðar það. Hann fullyrðir að árið 2020 verði alveg jafn mikil þörf á Pírötum og nú. „Ef ég á að þykja eitthvað ægilega mikilvægur fyrir Pírata þá held ég að ég verði alveg jafn mikilvægur þá,“ segir hann.
„Ég hef verið vísvitandi að breiða út orðróm sem blaðamaður spurði mig út í í dag og orðrómurinn er þess efnis að ég hyggist ekki bjóða mig fram í komandi alþingiskosningum. Ég hef talað við alla nánustu samstarfsmenn, fjölskyldu og fólk sem vinnur mikið með flokknum og finnst kominn tími til að ég útskýri hvað liggur að baki,“ segir Helgi Hrafn meðal annars í myndbandinu. Hann segir mikilvægt að það sé á hreinu að þessi ákvörðun sé ekki tekin til þess að taka minni þátt í starfi Pírata, heldur þvert á móti. Hins vegar hafi hann sagt frá byrjun að hann hygðist aðeins sitja eitt kjörtímabil en eftir að fylgið við flokkinn fór að aukast hafi hann látið undan þrýstingi og skipt um skoðun.
Vill brúa bilið milli þings og þjóðar
„Það er eitt sem við töluðum svolítið um í kosningabaráttunni 2013 er að okkur langaði að tengja almenning betur við Alþingi og grasrót Pírata og Pírata sem flokk. Búa til einhvers konar brú milli þings og þjóðar í lýðræðisskyni. Eftir þessi þrjú ár hefur það gerst að flokkurinn Píratar hefur margfaldast, bæði í félagatali og sömuleiðis í fylgi. Innra starfið er orðið rosalega mikið. Það er eiginlega hlægilegt að við séum sökuð um það nú til dags að við séum ekki með neinar stefnur því þær eru eiginlega orðnar of margar. Það er svo mikið í gangi. Á sama tíma er þingflokkurinn hins vegar á sama stað. Hann er jafnstór og með jafnmikið af fólki.
Helgi Hrafn segir flokkinn og Alþingi mjög ólíkar stofnanir og að það sé ógerningur að skilja Alþingi til hlítar án þess að hafa verið þar í einhvern tíma. Það þurfi því meiri en vilja til að byggja þessa brú milli þings og þjóðar, það þurfi þekkingu.
„Ég er ekki í stjórnmálum fyrir persónufylgið.“
„Það er það sem ég ætla að bjóða mig fram í núna,“ segir hann. „Það er það sem ég vill gera á næsta kjörtímabili. Að hjálpa til við að styrkja bæði þingflokkinn og flokkinn að þessu leyti. Byggja þessa brú og efla lýðræðið að þessu leyti.“
Helgi Hrafn segist gera sér grein fyrir því að fólk hafi áhyggjur af því að flokkurinn missi persónufylgið sem hann hefur. „En ég er ekki í stjórnmálum fyrir persónufylgið,“ segir Helgi Hrafn hins vegar. „Ég er í stjórnmálum vegna þess að ég trúi á þann málstað að lýðræðisvæða þetta land, umfram það sem þegar er að sjálfsögðu, og ég trúi því að sú lýðræðisvæðing verði að eiga sér stað víðar en á Alþingi. Hún þarf að eiga sér stað í flokkunum, hún þarf að eiga sér stað í samfélaginu og í grasrótum flokkanna. Þetta er samfélagslegt fyrirbæri, lýðræðið, og við getum ekki bara stólað á að Alþingismenn komi að þeirri þróun.“
Segir ákvörðunina veikja flokkinn
Nokkrir hafa þegar tjáð sig um ákvörðun Helga Hrafns. Þannig segir Egill Helgason, sjónvarpsmaður og bloggari, að ákvörðun Helga veiki Píratahreyfinguna mikið og dragi úr möguleikum hennar að sigra stórt í kosningunum í haust. „Að sama skapi eru þetta góð tíðindi fyrir ríkisstjórnarflokkana sem losna við einn sinn skæðasta andstæðing,“ skrifar Egill og segir ákvörðun hans hálf óskiljanlega. „Helgi Hrafn er einfaldlega sá Pírati sem nýtur mestra vinsælda og trausts. Það hefur hann áunnið sér með framgöngu sinni á þingi og í fjölmiðlum. Hann talar ætíð skýrt og málefnalega, kynnir sér hlutina vel, kemur á óvart með því að fara ekki hefðbundnar leiðir. Getur jafnvel skipt um skoðun – sem er mikilsverður eiginleiki. Helgi á mjög stóran þátt í vinsældum Pírata.“
Athugasemdir