Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og einn þekktasti talsmaður íhaldssamrar frjálshyggju á Íslandi, vill að konum sé bannað að bera blæjur.
Frá þessu greinir hann á Facebook-síðu sinni. „Auðvitað á ekki að banna konum að bera blæjur, af því að þær séu trúartákn. Það á að banna þeim það, af því að menn eiga ekki að fá að dulbúa sig á almannafæri, því að þá geta þeir komist undan ábyrgð á verkum sínum,“ skrifar prófessorinn.
Tilefni ummælanna er frétt Mbl.is um að Evrópudómstóllinn telji að brotið hafi verið gegn reglugerð ESB um bann við mismunun á grundvelli trúarbragða þegar franskur hönnunarverkfræðingur var rekinn úr starfi fyrir að bera blæju að íslömskum sið.
Áður hefur Mannréttindadómstóll Evrópu, sem heyrir undir Evrópuráðið, komist að þeirri niðurstöðu að búrkubann í Frakklandi feli ekki í sér brot gegn mannréttindasáttmálanum. MDE taldi bannið réttlætanlegt á grundvelli öryggissjónarmiða; stefnt gæti öryggi almennings í hættu að þekkja ekki almennilega einstaklinga sem hylja andlit sitt á almannafæri.
Hannes Hólmsteinn tekur fram að honum finnist eðlilegt að vinnuveitendur geti sett ákveðnar reglur um klæðaburð starfsfólks, jafnvel reglur sem útiloki blæjur. „Raunar setja líka veitingastaðir fastar reglur um klæðaburð. Og kirkjur: í suðrænum löndum mega menn ekki fara inn í kirkju í stuttbuxum og sandölum. Ég sé ekkert að slíkum reglum,“ skrifar hann.
Athugasemdir