Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og einn helsti hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins á árunum fyrir hrun, furðast að Píratar fái jafn mikið fylgi í skoðanakönnunum og raun ber vitni. Fullyrðir hann að Píratar finni ekki til neinnar ábyrgðar fyrir hönd þjóðarinnar.
„Ég skil að vísu, að margir séu ófúsir í skoðanakönnunum til að lýsa yfir stuðningi við vinstri flokkana (Icesave-flokkana tvo og Bjarta fortíð),“ skrifar hann á Facebook og bætir við: „Hitt þykir mér furðulegt, að menn lýsi þess í stað yfir stuðningi við Pírata, sem hafa enga stefnu, nenna ekki að mæta á þingfundi eða taka þátt í þingstörfum og finna ekki til neinnar ábyrgðar fyrir hönd þjóðarinnar, heldur reika inn og út af þingi eftir eigin hentisemi.“
Samkvæmt nýrri könnun MMR eru Píratar með mest fylgi allra flokka á Íslandi, eða 33,2 prósent. Eykst fylgi þeirra um eitt prósentustig frá síðustu könnun.
Fylgi Pírata hefur aukist jafnt og þétt undanfarna mánuði. Um leið verður flokkurinn fyrir æ meiri gagnrýni af hálfu sjálfstæðismanna og framsóknarmanna. Í forsíðuviðtali DV við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, í júní gaf hann í skyn að Píratar væri byltingarflokkur og sagði þá ógna rótgrónum íslenskum gildum.
Athugasemdir