„Heill sé Trump! Heill sé fólkinu okkar! Heill sé sigrinum!“ kallar Richard Spencer, forseti National Policy Institute, í ræðu sinni á ársfundi samtakanna í Washington um helgina, þar sem jakkafataklæddir, hægri fasistar hittust og fögnuðu því meðal annars að Donald Trump hefði verið kjörinn forseti Bandaríkjanna.
Ræðunni hefur nú verið dreift á Facebook af fréttatímaritinu The Atlantic. Í ræðunni færir Spencer orðræðu Donalds Trump lengra í átt til fasisma.
Donald Trump hefur í ræðum sínum endurtekið að fjölmiðlar séu „lygafjölmiðlar“. Þá hefur hann sakað þá um heimsku sem eru andvígir boðskap hans og gert lítið úr þeim á ýmsan annan hátt.
„Stóru fjölmiðlarnir, sem við ættum kannski að nota upprunalega þýska heitið yfir -Lügenpresse...“ segir Spencer í ræðunni, en slagorðið var meðal annars notað af nasistum til þess að grafa undan trúverðugleika fjölmiðla í upprisu þeirra í Þýskalandi á millistríðsárunum. Adolf Hitler notaði slagorðið strax árið 1922. Stuðningsmenn Trumps hafa einnig sungið slagorðið Lügenpresse á fundum hans.
Richard Spencer notar sambærilegt orðalag í ræðu sinni og Donald Trump, en gengur lengra og lýsir andstæðingum sínum sem ómanneskjulegum. „Það er ekki bara að þeir eru vinstri sinnaðir og veikgeðja, það er ekki bara að þeir eru raunverulega heimskir, maður veltir fyrir sér hvort þetta fólk sé fólk yfirhöfuð,“ sagði hann undir hlátri viðstaddra.
Sigur Donalds Trump hefur valdið aukningu á hatursglæpum í Bandaríkjunum, en hatursglæpum hafði þegar fjölgað fyrir kjör hans.
Hér fyrir neðan má sjá stuðningsmyndband fyrir Donald Trump þar sem hann leggur áherslu á heimsku annarra og „lygafjölmiðla“. „Pressan lýgur, þeir eru hræðilegt fólk... Það er mjög heimskt fólk að semja fyrir okkur í þessu landi.“
Hér má sjá myndband af atvikum þar sem Donald Trump hefur heillað fylgismenn sína meðal annars með því að hóta mótframbjóðanda sínum fangelsisvist og gagnrýna það sem er „pólitískt rétt“.
Athugasemdir