Ekki er óþekkt að háskólanemar sem leigi íbúð hjá Stúdentagörðum framleigi íbúðir sínar. Í lok febrúar komst upp um nemanda sem hafði framleigt íbúð sína við Lindargötu til bróður síns, sem ekki stundaði nám við Háskóla Íslands. Leigusamningi var tafarlaust rift við þann nemanda. „Við fengum tilkynningu um þetta frá nágranna. Við fengum upplýsingar um það hjá nágrönnum að það liti út fyrir að það væri ekki nemandi sem byggi í íbúðinni,“ segir Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar Stúdenta, í samtali við Stundina.
Hlutverk Stúdentagarða er að bjóða háskólanemum upp á leigu á vel staðsettu húsnæði á sanngjörnu verði. Eðli máls samkvæmt er leiga þar því undir markaðsverði og því tækifæri fyrir óprúttna nemendur að græða á framleigu.
„Það kom upp tilvik í fyrravetur þar sem við áttuðum okkur á því að íbúi hafði í einhvern tíma leigt út húsnæði sitt.“
Nágrannar eru vakandi
Rebekka segir að miðað við þann fjölda sem leigir hjá Félagsstofnun stúdenta sé merkilega lítið um framleigu. „Það kom upp tilvik í fyrravetur þar sem við áttuðum okkur á því að íbúi hafði í einhvern tíma leigt út húsnæði sitt. Þá var það líka ábending sem við fengum, fólk er mjög vakandi fyrir þessu. Það er mjög óeðlilegt að fólk sem leigir húsnæði sem er á félagslegum nótum sé að hagnast á því og leigja út einhverjum öðrum,“ segir Rebekka.
Leigði íbúðina til ferðamanna
Hún segir að í tilvikinu sem átti sér stað í fyrravetur hafi nemandinn leigt íbúð sína á leiguvefnum AirBnB, en fjölmargir Íslendingar hafa nýtt sér þann vef til að leigja íbúðir sínar út til ferðamanna. „Það var strákur sem var að auglýsa á AirBnB. Það var mjög einfalt að finna út úr því máli. Eftir það þá fylgjumst við með því. Ef þetta er einu sinni búið að koma upp þá áttar maður sig á því, maður hafði kannski ekki ímyndunarafl í það áður, svo kemur upp svoleiðis mál þá auðvitað tékkum við á því. Að mestu leyti er það þannig, vegna þess að líkurnar á að komast inn á Stúdentagarða eru það litlar, að ef fólk kemst inn vill það búa sjálft í húsnæðinu,“ segir Rebekka.
Athugasemdir