Hælisleitandinn Ali Nasir, sem dreginn var út úr Laugarneskirkju með valdi þann 28. júní síðastliðinn og sendur til Noregs, er 16 ára gamall samkvæmt vegabréfi hans sem varð eftir í Írak. Stundin hefur undir höndum afrit af vegabréfi og nafnskírteini sem foreldrar unglingsins létu í té með aðstoð túlks hans og vinar. Samkvæmt þessum skjölum er Ali fæddur þann 9. febrúar árið 2000 og því 16 ára gamall eins og hann tjáði Stundinni nóttina sem hann var sendur úr landi. Útlendingastofnun hefur hins vegar fullyrt í fréttatilkynningu að hann sé eldri en 18 ára.
Að sögn Alis varð hann sér úti um falsað vegabréf, sem gefur til kynna að hann sé 19 ára gamall, þegar hann flúði frá Írak vegna þess að auðveldara er að ferðast úr landinu sem fullorðinn einstaklingur heldur en sem barn. Skildi hann því hið ósvikna vegabréf eftir á heimili sínu. Á leiðinni til Íslands segist Ali hafa frétt að að Íslendingar hefðu um árabil dæmt flóttafólk í fangelsi fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum. Auk þess væri hérlendis oftast dregið í efa að hælisleitendur væru undir lögaldri þegar þeir héldu því fram. Þegar Ali kom hingað til lands og sótti um hæli framvísaði hann því falsaða vegabréfinu en þorði ekki að segja íslenskum yfirvöldum að pappírarnir væru falsaðir.
„Sagðist vera hræddur“
Salmann Tamimi var kallaður til sem túlkur þegar Ali var tilkynnt um að mál hans yrði ekki tekið til efnismeðferðar á Íslandi. „Hann laug til um aldur, elsku strákurinn, hann var svo hræddur um að ef hann segði frá því að vegabréfið væri falsað myndi hann lenda í vandræðum,“ segir Salmann í samtali við Stundina.
Athugasemdir