Ómar Sigurðsson, fyrrverandi félagi í Oddfellowreglunni til 20 ára og féhirðir einnar stúku reglunnar, hefur kært stjórn reglunnar til fjármálaráðherra fyrir stórfelld skattalagabrot. Samkvæmt bréfi fjármálaráðuneytisins hefur þeirri kæru verið vísað áfram til ríkisskattstjóra til meðferðar. Ómar segist í samtali við Stundina hafa orðið vitni að ítrekuðum brotum stúka við skil á virðisaukaskatti.
Stundin ræddi við helstu leiðtoga reglunnar og er þeirra saga af málinu allt önnur, þeir segja ásakanir um skattsvik ekki á neinum rökum reistar og að undanfarin fjögur ár hafi reglan og leiðtogar hennar þurft að sitja undir dylgjum Ómars. Hann hafi sent ótal hótandi skilaboð og hafi þessi herferð haft neikvæð áhrif á einkalíf þeirra. Leiðtogar reglunnar segjast hafa fundað með lögreglunni, sýnt henni skilaboð frá Ómari en þó ákveðið að kæra hann ekki. Þeir hafa lengst af tekið þá afstöðu að svara honum ekki. „Manni finnst mjög vont að sitja í þeirri stöðu að við sem erum ásakaðir, við höfum ekkert í höndunum um að við höfum verið kærðir. Við höfum ekkert bréf fengið frá neinu yfirvaldi um að það liggi inni kæra á okkar hendur,“ segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og varastórsír Oddfellowreglunnar, í samtali við Stundina.
Athugasemdir