Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fundaði með Rannveigu Rist, forstjóra Rio Tinto á Íslandi, á mánudaginn. Fjórum virkum dögum áður hafði Þórdís ráðið Ólaf Teit Guðnason, framkvæmdastjóra hjá Rio Tinto til átta ára, sem aðstoðarmann sinn.
„Það er eitthvað svolítið gott við að búa í landi þar sem mynd af fundi iðnaðarráðherra og forstjóra einnar stærstu verksmiðju landsins lítur svona út,“ skrifar Ólafur Teitur á Facebook þar sem hann deilir mynd af Þórdísi, núverandi yfirmanni sínum í iðnaðarráðuneytinu, og Rannveigu, fyrrverandi yfirmanni sínum hjá Rio Tinto.
Tilkynnt var um ráðningu Ólafs Teits á miðvikudaginn í síðustu viku, en hann hefur starfað sem framkvæmdastjóri samskiptasviðs Rio Tinto frá árinu 2008. Sem aðstoðarmaður mun Ólafur vinna að stefnumótun á málefnasviði ráðuneytisisins í samvinnu við ráðuneytisstjóra og undir yfirstjórn Þórdísar Kolbrúnar.
Á meðal þeirra mála sem Þórdís Kolbrún fer með samkvæmt forsetaúrskurði eru ívilnanir vegna nýfjárfestinga, gerð fjárfestingarsamninga við fyrirtæki, fjárfestingar erlendra aðila í atvinnurekstri, orkumál og auðlindanýting. Þá fer hún með önnur mál er lúta að iðnaði, svo sem verksmiðjuiðnaði og stóriðju.
Rio Tinto Alcan á Íslandi hf. rekur álverið í Straumsvík og er hluti af Rio Tinto Alcan, einum stærsta álframleiðanda í heimi. Verksmiðjuheiti álversins er ISAL og notar það tæplega 3.000 gígawattstundir af raforku á ári, eða um 18% af þeirri raforku sem notuð er á Íslandi.
Athugasemdir