Kristín Þórhallsdóttir stendur fyrir tannhvíttun á allt að 12 ára börnum í gegnum fyrirtæki sitt Stjörnubros. Krístín er í raun algjörlega ómenntuð til að sinna slíkri aðgerð, en samkvæmt kynningu sem birtist á vefsíðunni krom.is nýverið er hún með „diploma í faginu frá Bristol í Bretlandi.“ Þegar betur er að gáð kemur í ljós að diplóman er frá Fuss Beauty School. Bæði Kristín Heimisdóttir, formaður Tannlæknafélags Íslands, og Ásta Óskarsdóttir, varaformaður sama félags, gera alvarlegar athugasemdir við þessa aðgerð Kristínar. Aðgerðin getur skemmt fyrir lífstíð ómótaðar tennur barna.
Stundin villti á sér heimildir og þóttist vera foreldri fermingarbarns sem vildi koma í tannhvíttun. Það var ekkert mál að sögn Kristínar. Í seinna samtali við Stundina segir Kristín að hún hafi framkvæmt tannhvíttunn þrisvar sinnum á börnum undir sextán ára aldri. „Ég er ekki að gera slæma hluti. Ég er bara föst á einhverju gráu svæði út af einhverjum lögum og reglum,“ segir Kristín. Stjörnubros hefur ítrekað verið auglýst hjá aha.is og fann Stundin minnst sjö tilvik þar sem tímabundin tilboð voru í boði á vefsíðunni.
Athugasemdir