Í Frakklandi, eins og á Íslandi, er miklu magni af mat hent úr stórmörkuðum þótt hann sé fyllilega nýtanlegur. Stórmarkaðir vilja ekki gefa matinn, þar sem það dregur úr hagnaðarvon þeirra.
Franska þingið hefur nú samþykkt einróma frumvarp sem meinar stórmörkuðum að henda mat. Þingmaðurinn Yves Jégo lýsti því á franska þinginu hvers vegna þverpólitísk samstaða um málið væri nauðsynleg: „Það ríkir alger neyð - góðgerðarsamtök bráðvantar mat. Það sem hreyfir mest við manni við þessi lög er að þau opna augu okkar fyrir þeim sem eiga um sárt að binda.“
Eyðileggja mat í staðinn fyrir að gefa
Eins og staðan er í dag beita stórmarkaðir meðvitað aðferðum til þess að koma í veg fyrir að matur, sem er kominn fram yfir síðasta söludag, nýtist öðrum, jafnvel þótt hann sé vel ætur. Á sama tíma glímir hluti frönsku þjóðarinnar við hungur. Fjallað hefur verið um það í frönskum fjölmiðlum hvernig fátækar fjölskyldur, nemar, atvinnulausir og heimilislausir róta að næturþeli í ruslagámum stórmarkaða til að afla sér fæðu. Fæðan sem hent er af stórmörkuðum er gjarnan vel æt, þrátt fyrir að síðasta söludegi sé náð. Margir stórmarkaðir grípa til sérstakra aðferða við að koma í veg fyrir að fólk geti nýtt sér útrunna matinn með því að læsa útrunna matinn inni í vöruhúsum áður en hann er sóttur af flutningabílum til að flytja í eyðslu, eða nota klór til að koma í veg fyrir að fólk borði hann - og þar með koma í veg fyrir mögulega matareitrun.
Yfir tíu milljónir í sekt við brotum
Samkvæmt nýju lögunum liggur refsing við því að stórmarkaðir sem eru stærri en 400 fermetrar hendi matnum í stað þess að gefa hann til góðgerðarfélaga eða nýta hann í dýrafóður. Útfærslan felst í því að stórmarkaðir verða að semja við góðgerðarfélög fyrir júlí á þessu ári. Refsingin við því að brjóta lögin getur numið sekt yfir 10 milljónum króna, eða jafnvel tveimur árum í fangelsi.
„Það er skandall að klór sé hellt yfir ætan mat.“
„Það er skandall að klór sé hellt yfir ætan mat í ruslatunnum stórmarkaðanna,“ sagði þingmaður Sósíalista, Guillaume Garot, sem lagði fram frumvarpið.
Tuttugasti hver Íslendingur lendir í matarþurrð
Samkvæmt rannsókn Capacent árið 2012 fékk tuttugasti hver Íslendingur eða fjölskylda hans ekki nóg að borða einhvern tímann undangengið ár. Hjá einu prósenti, yfir þrjúþúsund manns, kom það oft fyrir.
Stundin hefur fjallað um veruleika þeirra sem lifa við matarskort á sama tíma og mat er hent hjá stórmörkuðunum. Á Íslandi læsa stórmarkaðir einnig gámum með útrunnum mat til að koma í veg fyrr að hann nýtist fólki í fjárþurrð, enda getur það minnkað hagnað þeirra. Greinina, „Hungruð í landi allsnægtanna“, má lesa hér.
Athugasemdir