„Ég get alveg sagt þér það að við erum alls ekki ánægð með það ástand sem er þarna og það er alls ekki fullnægjandi,“ segir Eyjólfur Sæmundsson, forstjóri Vinnueftirlits ríkisins um aðbúnað og öryggi starfsmanna United Silicon.
Þeir starfsmenn sem Stundin hefur rætt við hafa meðal annars gagnrýnt eftirlit stofnunarinnar. Eyjólfur er ósammála þeirri gagnrýni og segir Vinnueftirlit ríkisins taka þessu mjög alvarlega en eftirlitið skráði niður 17 athugasemdir í þremur eftirlitsheimsóknum sem lutu að grundvallaratriðum í öryggi starfsmanna.
Stundin hefur að undanförnu fjallað ítarlega um kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík en nú hafa tvær eftirlitsstofnanir skráð niður 29 frávik eða athugasemdir vegna starfseminnar og hafa þær krafist úrbóta. Aðeins tæpir tveir mánuðir eru síðan að verksmiðjan var gangsett en Stundinni hafa borist fjölmörg myndskeið sem sýna bæði brot á skilmálum starfsleyfis United Silicon og brot á ýmsum reglum er varða öryggi og aðbúnað starfsmanna á vinnusvæðinu.
Öryggi starfsmanna ekki tryggt
Myndskeiðið sem fylgir þessari frétt sýnir sjúkraherbergi verksmiðjunnar en þar á að vera hægt að veita fyrstu hjálp þegar alvarleg slys eiga sér stað. Sjúkraherbergið er þó langt frá því að vera öruggt fyrir meðhöndlun sára en það er grútskítugt auk þess sem engin áhöld eru til að hlúa að þeim sem lenda í slysum eða óhöppum. Stundin hafði samband við Eyjólf sem fór yfir þau grundvallaratriði sem þurfa að vera í lagi.
„Það á að vera skipulegt öryggisstarf í svona fyrirtæki og það á að vera áhættumat sem byggir á raunverulegum aðstæðum og þar sem meðal annars er tekið á því hvernig brugðist er við þegar bilanir og aðrar óvæntar aðstæður koma upp. Svo á að vera áætlun um heilsu og forvarnir en inni í því eru til dæmis reglubundnar mælingar á mengun í andrúmslofti starfsmanna. Þá á að vera eftirlit með hávaða og fyrir á að liggja mat á því hvar þarf persónuhlífar og allt slíkt. Síðan eiga að vera til staðar sérstakir öryggistrúnaðarmenn starfsmanna sem hafa sótt námskeið og fengið þjálfun og eiga að vera fyrir hönd starfsmanna í samstarfi við stjórnendur fyrirtækisins um að leysa úr málum. Síðast en ekki síst á að vera starfandi öryggisnefnd þar sem þessi fulltrúar og stjórnendur í fyrirtækinu hittast til þess að fara yfir það sem þarf að gera. Þetta eru algjör grundvallaratriði sem þurfa að vera í lagi,“ segir Eyjólfur.
Er þetta til staðar hjá United Silicon í dag?
„Nei, þetta hefur ekki verið til staðar. Eins og ég segi þá eru þetta grundvallaratriði sem þeir verða að koma í lag og þeir hafa fengið stuttan frest til þess.“
Hvers vegna var ekki farið í eftirlit fyrr og krafist úrbóta fyrr? Er það eðlilegt að leyfa verksmiðjunni að hefja rekstur þegar ekki er búið að taka út þá þætti sem snúa að Vinnueftirliti ríkisins. Hefði ekki verið eðlilegra að gera þetta áður en hún hóf rekstur?
„Það er ekki hægt í þessu tilfelli vegna þess að þetta ástand sem þarna er hefði aldrei komið í ljós við skoðun áður en verksmiðjan var gangsett.“
Fátæklegt sjúkraherbergi
Eyjólfur segir stofnunina hafa gefið United Silicon stuttan frest til þess að gera úrbætur á þeim sautján athugasemdum sem skráðar voru. Hann býst fastlega við því að þær verði fleiri eftir því sem vinnueftirlitið tekur út fleiri þætti starfseminnar. Þá sérstaklega því sem snýr að öryggi, aðbúnaði og vinnusvæði starfsmanna kísilmálmverksmiðjunnar. Verkefnið sé gríðarlega umfangsmikið en í ljósi frétta af ömurlegum aðstæðum starfsmanna United Silicon var ákveðið að eftirlit og úttekt á starfsemi fyrirtækisins í Helguvík yrði sett í forgang.
Eitt af því sem starfsmenn verksmiðjunnar hafa gagnrýnt er til dæmis sjúkraherbergi verksmiðjunnar en þar á að vera hægt að veita mönnum fyrstu hjálp, hvort sem starfsmenn hafi brunnið eða skorið sig. Herbergið er grútskítugt og engin áhöld eru til staðar til þess að hlúa að þeim sem lenda í slysi. Myndi Vinnueftirlitið setja út á herbergið í þessari mynd?
„Já, mér sýnist það á myndinni. Hitt er síðan annað mál að ef það verða þarna alvarleg slys á að hringja í sjúkrabíl í grænum hvelli. Þetta sjúkraherbergi á að vera og er í áætlunum um verksmiðjuna sem hafa komið hingað til umfjöllunar og mér sýnist þetta sjúkraherbergi fátæklega búið satt best að segja.“
En hvað getur Vinnueftirlit ríkisins gert til þess að knýja fram úrbætur ef ykkar kröfum er ekki sinnt?
„Vinnueftirlitið hefur tvær aðferðir til þess að knýja fram úrbætur ef ekki er farið eftir fyrirmælum. Annars vegar að leggja dagsektir á fyrirtækið og hins vegar, ef við teljum hættu stafa fyrir líf og heilsu starfsmanna sem getur bæði verið bráða- og langtímahætta, þá getum við stöðvað starfsemina,“ segir Eyjólfur.
Frekari umfjöllun um United Silicon má finna í nýjasta tölublaði Stundarinnar sem kom út í gær, fimmtudaginn 5. janúar.
Athugasemdir