Haraldur F. Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segir ummæli Höllu Tómasdóttur um leikskólakennara vera vandræðaleg. Í viðtali við Spegilinn á Rás 1 í byrjun júní segist Halla ekki vera komna af efnafólki en að foreldrar hennar hafi hvatt hana til að ganga menntaveginn. „Þó að þau gætu ekki fjárhagslega stutt mig til þess var alltaf mikill andlegur stuðningur frá foreldrum mínum, að mér gengi vel í skóla, og mér gekk vel. Ég á tvær systur sem eru báðar leikskólakennarar, þær höfðu ekki jafngaman af skóla og ég. Þau studdu mikið við mig, að fara til náms,“ sagði Halla, en hún er með gráðu í mannauðsstjórnun og MBA gráðu frá Bandaríkjunum.
Haraldur, sem segist ekki hafa tjáð sig mikið um forsetaframbjóðendur hingað til, segir þessi ummæli of vandræðaleg til að minnast ekki á þau. „Höllu til upplýsingar þá til þess að verða leikskólakennari þarftu að fara í fimm ára krefjandi háskólanám. Vissulega er ekki skilyrði að hafa gaman af, en það sjálfsagt hjálpar,“ skrifar Haraldur.
Metur fáar stéttir meira
„Ég er miður mín yfir því að þarna hafi ég annað hvort tekið óheppilega til orða eða eitthvað verið tekið úr samhengi,“ segir Halla í samtali við Stundina. Hún segir einnig miður að einhver hafi skilið ummæli hennar með þessum hætti og segist alltaf hafa verið mikil talsmanneskja þess að við breytum og ræðum það virðismat sem metur peninga meira en menntun barna. „Ég hef alltaf sagt á öllum fundum að ég skilji ekki forgangsröðun sem verðmetur svo miklu hærra þá sem hugsa um fjárauðinn okkar heldur en þá sem hugsa um barnauðinn okkar, eða eldri borgara.“
„Mér finnst sannarlega ekki mikilvægara að sinna peningum en börnum.“
Halla segist vera ákaflega stolt af systrum mínum. Einungis yngri systir hennar er menntaður leikskólakennari en eldri systir hennar starfar á leikskóla, en ekki sem menntaður leikskólakennari. „Ég var að vísa í barnæskuna þegar ég var að tala um áhugann á skóla. Í barnæskunni var yngri systir mín ekki enn komin í skóla en eldri systir mín hafði ekki mikinn áhuga á skóla.“
Þá bendir Halla á að móðir hennar var þroskaþjálfi, hún hafi sjálf setið í stjórn Hjallastefnunnar og að Margrét Pála Ólafsdóttir sé ein af hennar stærstu stuðningsaðilum. „Ég met fáar stéttir, ef einhverjar, meira og mér finnst sannarlega ekki mikilvægara að sinna peningum en börnum,“ segir hún.
Með næst mest fylgi frambjóðenda
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum mælist Halla nú með næst mest fylgi frambjóðenda og hefur bætt verulega við sig frá síðustu könnunum. Samkvæmt könnun Fréttablaðsins er Halla nú með 19,6 prósenta fylgi og hefur bætt við sig tíu prósentustigum frá könnun blaðsins í síðustu viku. Morgunblaðið birti einnig nýja skoðanakönnun í morgun, sem unnin var í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, og þar er Halla einnig með næst mest fylgi eða 17,1 prósent.
Athugasemdir