Kostnaður innanríkisráðuneytisins vegna fjölmiðlaráðgjafar vegna lekamálsins nam alls 2.394.300 krónum. Þetta kemur fram í svari ráðuneytisins við fyrirspurn frá Jóni Þór Ólafssyni þingmanni Pírata. Þá nam kostnaður við lögfræðilega ráðgjöf tæplega 860 þúsund krónum.
Í svari við fyrirspurn Jóns Þórs segir að ráðgjöf hafi verið veitt á sviði almannatengsla og kynningarmála, einkum vegna mikillar umfjöllunar í fjölmiðlum um meðferð persónuupplýsinga á þessum tíma. Áhugavert er því að bera dagsetningar reikninga vegna fjölmiðlaráðgjafar saman við það sem var verið að fjalla um í fjölmiðlum hverju sinni og framvindu málsins. Athygli vekur að ekki var keypt ráðgjöf í kjölfar frétta um að Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hafi hætt störfum eftir þrýsting og afskipti Hönnu Birnu.
Ráðgjöf í kjölfar lögreglurannsóknar
Fyrsta fjölmiðlaráðgjöfin er veitt 8. febrúar á síðasta ári, daginn eftir að ríkissaksóknari mælir fyrir um lögreglurannsókn á innanríkisráðuneytinu og starfsmönnum þess.
Næst er veitt fjölmiðlaráðgjöf 8. mars en hún er jafnframt sú dýrasta. Í lok febrúar greindi DV frá því að aðeins örfáir starfsmenn hafi haft skjalið um hælisleitendurnar undir höndum þegar því var leikið, meðal annars ráðherra og aðstoðarmenn. Jafnframt er greint frá því að setningu hafi verið skeytt aftan við skjalið. Í kjölfarið var Hanna Birna harðlega gagnrýnd á Alþingi fyrir að skorast undan því að svara skriflegri fyrirspurn um lekamálið. Þann 3. mars greinir DV frá því Hanna Birna hafi farið með ósannindi á Alþingi þegar hún sagði minnisblaðið ekki sambærilegt við nein gögn í ráðuneytinu. Þann 7. mars, daginn áður en greitt er fyrir fjölmiðlaráðgjöf, segir DV frá því að frænka Hönnu Birnu hafi fengið yfirmannsstöðu hjá lögregluskólanum.
Athugasemdir