Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segir að það hve mörgum flóttamönnum Ísland geti tekið á móti ráðist af sjálfboðavinnu fólks. Þetta kom fram í fréttatíma Stöðvar 2 í gærkvöldi.
„Núna þurfum við einfaldlega á því að halda að þær þúsundir sem hafa stigið fram og hvatt okkur áfram til góðra verka hjálpi okkur við verkefnið, hafi samband við okkur í velferðarráðuneytinu, hafi samband við Rauða krossinn og íhugi það, og spyrji einfaldlega hvað það geti gert til að hjálpa til,“ sagði Eygló í viðtali.
„Ef við náum að taka höndum saman hvað þetta varðar, þá þurfum við ekki endilega að setja einhverja hámarkstölu á fjölda flóttamanna sem við getum tekið við“
Kallar eftir sjálfboðaliðum
Aðspurð hversu mörgum flóttamönnum stjórnvöld gætu tekið á móti svaraði Eygló: „Það byggist einmitt akkúrat á þessu. Ef þú ert með laust starf að hafa samband við Rauða krossinn eða velferðarráðuneytið. Ef þú ert með íbúð til leigu, að hafa samband, því við erum nú þegar með fólk í landinu sem þarf á þessari aðstoð að halda. Ertu tilbúinn að bjóða þig fram sem sjálfboðaliði og mæta og hjálpa til með að flóttamenn geti lært á íslenska bankakerfið sem er ekki einfalt? Aðstoð við einfaldlega bara matarinnkaup og margvísleg önnur verkefni sem þarf að vinna. Og ef að þetta allt, ef við náum að taka höndum saman hvað þetta varðar, þá þurfum við ekki endilega að setja einhverja hámarkstölu á fjölda flóttamanna sem við getum tekið við.“
Gagnrýnir ölmusuvæðingu
Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar gagnrýnir Eygló harðlega fyrir að ölmusuvæða aðstoð við flóttafólk. „Það er vissulega mikilvægt að almenningur styðji við móttöku flóttamanna með sjálfboðastarfi, eins og rík hefð er fyrir hér á landi. En stjórnvöld geta ekki afneitað ábyrgð sinni á móttöku flóttamanna, eins og ráðherrann gerir. Þetta er samfélagslegt verkefni, en ekki verkefni sem hægt er að ölmusuvæða,“ skrifaði Árni Páll í stöðuuppfærslu á Facebook í gærkvöldi.
Athugasemdir